Samningur við A-landsliðsþjálfara undirritaður

Sigurbjörn Bárðarson og formaður landsliðsnefndar Kristinn Skúlason hafa undirritað áframhaldandi ráðningarsamning um starf A-landsliðsþjálfara LH.

Starf landsliðsþjálfara hefur verið í þróun frá því að landliðshópar LH voru fyrst skipaðir en þetta er fjórða árið sem landsliðsþjálfarar eru að störfum allt árið um kring.

Í kjölfar stefnumótunarvinnu afreksmála LH undanfarnar vikur hafa verkefni landsliðsþjálfara verið endurskilgreind og starf A-landsliðshópsins verður umfangsmeira en áður. Þjálfari  mun m.a. koma að þjálfunarferli hvers landsliðsknapa og veita faglega endurgjöf með reglubundnum hætti yfir þjálfunartímabilið.

Framundan er spennandi ár, undirbúningur fyrir Norðurlandamót í ágúst 2022 er í fullum gangi og lagður verður grunnur að undirbúningi fyrir HM 2023.

A-landsliðshópur LH 2022 verður kynntur 21. janúar og um leið verður dagskrá landsliðshópsins fyrir árið kynnt. Búast má við nokkrum breytingum á landsliðshópunum frá fyrra ári, mikið af ungum og efnilegum knöpum banka á dyrnar og verður ekki auðvelt verk fyrir landsliðsþjálfara að setja saman hópinn enda margir um hituna. Miðað er við að skipaður verði 15 manna hópur í janúar en nokkrum sætum haldið lausum fyrir knapa sem sýna framúrskarandi keppnisárangur á árinu og þeir teknir inn í hópinn eftir því sem þurfa þykir.

Við bjóðum Sigurbjörn Bárðarson velkominn til áframhaldandi starfa.