Sara Arnbro er reiðkennari ársins 2021

17. desember 2021
Fréttir
Sara Arnbro reiðkennari ársins 2021.

Sara Arnbro er reiðkennari ársins 2021 á Íslandi.
Sara er frá Svíþjóð en hefur búið á Íslandi undanfarin 20 ár. Hún er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og rekur ásamt eiginmanni sínum Lalla reiðskólann Ysta-Gerði þar sem þau rækta, þjálfa og kenna.

Reiðskólinn Ysta-Gerði í Eyjafjarðarsveit var með yfir 150 skráningar á reiðnámskeið 2021 og hefur stækkað mikið undanfarin ár. Nemendur þeirra eru mest börn á aldrinum 5-16 ára. Sum þeirra eru með ADHD, einhverfu eða haldin kvíða og eru reiðnámskeiðin búin að vera mikilvægur þáttur í vellíðan þeirra á Covid tímum. Sara kennir mest í gegnum leiki og læra börnin að vera með gott jafnvægi og góða stjórn á hestunum í gegnum það.
Reiðskólinn Ysta-Gerði er þekktur fyrir að vera persónulegur, öruggur og og skemmtilegur þar sem börn hafa náð að láta ljós sitt skína og hafa gaman.

LH telur að Sara sé frábær fyrirmynd um hvað er mikilvægt í hestaheiminum.

Val á Söru Arnbro sem reiðkennara ársins fyrir Íslands hönd hefur verið sent til Feif sem reiðkennari ársins (Feif trainer of the year) og verður kosning á vefsíðu Feif  þann 10-17. janúar 2022 þar sem kosið verður um 1 reiðkennara frá hverju landi. Sigurvegari í Feif kosningunni verður síðan tilkynntur 4-5.febrúar 2022.

LH óskar Söru til hamingju!