Samantekt frá fyrsta keppnisdegi í Survive Iceland

25. ágúst 2022
Fréttir
Marjon Pasmooij á Karítas frá Kirkjufelli og Karri Bruskotter á Skuld frá Stokkseyri koma í mark við Gunnarsholt

Fyrsti dagur í þolreiðarkeppni LH, Survive Iceland fór fram í dag.

Fyrri áfangi dagsins var frá Skarði í Landsveit, um Skarfanes, fram hjá Þjófafossi og endað á Rjúpnavöllum, 28. km. alls. Hermann Árnason sem ríður fyrir lið Líflands átti bestan árangur á þeim legg, eða 1 klst. og 32 mín.

Á seinni áfanga dagsins var riðið frá Rjúpnavöllum, eftir Heklubraut að Gunnarsholti, 31 km. alls. Emelie Sellberg sem ríður fyrir lið H. Hestaferða var með besta tímann á þeim legg eða 1 klst. og 54 mínútur alls.

Eftir daginn leiðir Hermann með tímann 3 klst. og 35 mín, en Emilie kemur fast á eftir með 3 klst. og 36 mín.

Góðar aðstæður voru til reiðar í dag, riðið var um láglendi á góðum götum og í góðu veðri. Hestarnir komu almennt vel út úr dýralæknaskoðun, einhverjir fengu refsistig vegna púls að lokinni reið og lítið var um refsistig áverka.

Staðan eftir dag eitt:

Lífland – Hermann Árnason, 03:35
H. Hestaferðir – Emelie Sellberg, 03:36
Íslandshestar – Marjon Pasmooij, 03:42
Eldhestar – Sigurjón Bjarnason, 03:49
Tamangur/Hestaland – Sami Browneller, 04:00
Stálnaust – Karri Bruscotter, 04:12

Á morgun verður riðið um Krakatindsleið og kringum Valafell á Landmannaafrétti. Fylgist með á vef hugbúnaðarfyrirtækisins Samsýn www.surviveiceland/samsyn