Pistill til umhugsunar

Frétt í síðustu viku gerði mann forviða. Það eru ekki nema þrjú ár síðan við þurftum að fresta landsmóti vegna “smitandi hósta” sem reyndi verulega á þolrif hestamanna og þeirra sem reka hestatengda starfsemi með alvarlegum afleiðingum upp á hundruð milljóna tjón, sem margir sjá ekki enn út úr, og ekki er vitað hvernig fer.

Frétt í síðustu viku gerði mann forviða. Það eru ekki nema þrjú ár síðan við þurftum að fresta landsmóti vegna “smitandi hósta” sem reyndi verulega á þolrif hestamanna og þeirra sem reka hestatengda starfsemi með alvarlegum afleiðingum upp á hundruð milljóna tjón, sem margir sjá ekki enn út úr, og ekki er vitað hvernig fer.


Því veltir maður því fyrir sér hvernig það geti gerst nú þremur árum síðar eftir alla þá umræðu og aukna fræðslu að járningarmaður komi til landsins með sín tól og tæki til að járna hest. Hann fer í gegnum allt eftirlit án þess að taka eftir eða fá upplýsingar um að innflutningur á þeim tækjum sem hann notar er bannaður. Verkkaupandinn virðist heldur ekki hafa gert honum grein fyrir þeim reglum sem eru í gildi hér á landi varðandi sóttvarnir og það sem verst er að eigandi viðkomandi þjálfunarmiðstöðvar og fréttamaður horfðu á járninguna á hestinum. Hvernig gat þetta gerst? Hefði koma járningarmannsins ekki þótt fréttnæm, þá hefði þetta ekki komist í hámæli. Sú spurning vaknar hvort upptök “smitandi hósta” hafi borist hingað með svipuðum hætti fyrir þremur árum. Hestamenn þurfa nú að velta því alvarlega fyrir sér hvað sé til ráða nú þegar ljóst er að það kerfi sem við búum við er ekki að virka betur þrátt fyrir aukna áherslu frá MAST á sóttvarnir eftir árið 2010. Er komið að því að setja þurfi lög þar sem flugfélög og skipafélög sem flytja fólk til landsins fái ekki rekstrarleyfi nema þau hafi viðurkennt kynningarefni sem þau komi vel á framfæri við sína farþega ? Þarf einnig að setja lög sem draga þá til ábyrgðar með ákveðnari hætti sem verða uppvísir af tilvikum sem þessum? Hinn valmöguleikinn er sá að fella niður allar sóttvarnir og hefja bólusetningar með hundruð miljóna króna kostnaði á hverju ári fyrir hesteigendur án nokkurrar tryggingar um árangur. Hefur hestamennskan efni á öðrum faraldri vegna virðingaleysis við hestinn? Eru menn virkilega svona fljótir að gleyma? Undan þessari umræðu verður ekki vikist og finna þarf betri lausnir en nú eru í boði.


Haraldur Þórarinsson, formaður LH.