Öflugt starf í U21-landsliðshópi LH

21. maí 2022
Fréttir

Starfssemi U21-landsliðshópsins hefur verið öflug í vetur. Nýr hópur fyrir árið var skipaður í byrjun desember og samanstendur hópurinn af 16 knöpum á aldrinum 16-21 árs, 7 stelpum og 9 strákum. Hópurinn var kallaður saman í desember þar sem farið var yfir skipulag ársins, hvað felst í því að vera landsliðsknapi og þætti eins og hegðunarviðmið í íþróttahreyfingunni. Við sama tækifæri fengu þau fyrirlestur frá Begga Ólafs, þjálfunarsálfræðingi.

Landsliðsþjálfarinn Hekla Katharína Kristinsdóttir gerir reglulega stöðumat á hópnum og var fyrsta mat gert í desember þar sem knapar sendu þjálfaranum myndbönd af æfingastund á sínum keppnishestum og fengu svo endurgjöf frá þjálfara í kjölfarið.

Knapar í U21-landsliðinu hafa sl. tvö ár tekið að sér að vera með upphitunarhesta í öllum greinum í Meistaradeildinni í hestaíþróttum, prúðbúin í landsliðsjakkanum, og er það góð æfing fyrir komandi keppnistímabil. Yfirdómari í Meistaradeildinni hittir þau eftir og fer yfir sýningarnar með þeim.

Líkamlegar mælingar eru framkvæmdar árlega á landsliðshópum LH af íþróttafræðingi. Er þetta gert til að meta líkamlegt ástand þeirra og gefur þeim upplýsingar um ákveðna þætti varðandi er varðar áherslur í þjálfun á eigin líkama. Hópurinn fór í mælingar í mars og í kjölfarið fengu þau frábæran fyrirlestur frá frjálsíþróttaþjálfaranum Rúnari Hjálmarssyni og ábendingar um æfingar sem henta sérstaklega vel fyrir knapa til að styrkja færni sína í hnakknum.

Annað stöðumat ársins var gert í mars og var sami háttur hafður á, knapar sendu þjálfaranum myndband og fengu endurgjöf frá þjálfara.

U21-hópurinn var með glæsilegt opnunaratriði á „Allra sterkustu“, fjáröflunarviðburði landsliðsnefndar og sýndu þar faglega reiðmennsku á sínum bestu hestum. Sama dag var haldinn stór fyrirlestur um reynslu þeirra sem hafa farið á og komið að stórmótum eins og HM og NM. Hekla Katharína deildi reynslu sinni af því að keppa á HM en hún varð heimsmeistari í fjórgangi í ungmennaflokki árið 2011. Sigurbjörn Bárðarson A-landsliðsþjálfari fór yfir ýmsa praktíska þætti í aðdraganda og á stórmótum, Benjamín Sandur Ingólfsson sagði frá því þegar hann varð heimsmeistari í gæðingaskeiði í ungmennaflokki árið 2019, Kristinn Skúlason formaður landsliðsnefndar fjallaði um liðsheild og starf landsliðsnefndar fyrir stórmót og Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH fór yfir verkefni skrifstofu LH í aðdraganda stórmóts.

Í byrjun maí var þriðja stöðumat ársins, en í þetta sinn úti á velli þar sem knaparnir riðu keppnisprógramm og voru fengnir alþjóðadómarar til að dæma sýningar þeirra og fara yfir með þeim hvað var gott og hvað mætti betur fara. Var þetta gert á þremur stöðum á landinu samtímis, á Hólum, á Selfossi og í Reyjavík. Mæltist þetta fyrirkomulag vel fyrir.

Framundan er Norðurlandamót í ágúst og stóra markmið allra knapanna í U21 er að fara á HM 2023. Það er ljóst að framtíðin er björt í hestaíþróttum á Íslandi og mikill auður býr í þessum flottu ungu knöpum sem skipa U21 árs landslið LH.