Nýtt áningargerði við Sveinsstaði í A-Hún

11. febrúar 2020
Fréttir

Á síðasta ári stóð Hestamannafélagið Neisti fyrir því að smíða veglegt áningargerði við Sveinsstaði í Austur-Húnavatnssýslu. Við Sveinsstaði mætast margar og fjölfarnar leiðir bæði ofan af hálendi og innan sveitar. Aðstaðan sem fyrir var voru eingöngu þau mannvirki sem bændur á Sveinsstöðum komu sér upp til eigin nota. Umferð um Sveinsstaði var orðin mikil og oft fjöldi hópa í áningu á sama tíma. Það þótti því bæði nauðsynlegt og eðlilegt að reyna að koma upp betri aðstöðu á þessum krossgötum.

Þær krossgötur sem þarna mætast eru Þjóðvegur 1, Vatnsdalsvegur vestari og Þingeyrarvegur. Mikil umferð ökutækja er á þessu svæði og afar brýnt að tryggja öryggi þeirra sem þarna fara um hvort sem þeir eru akandi, hjólandi, gangandi eða ríðandi. Það að koma upp góðri áningaraðstöðu fyrir hesta og reiðmenn var því nauðsynlegt til að bæta öryggi allra sem þarna fara um.

Hestamannafélagið Neisti sótti um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamanna til verkefnisins og fékk tæpar 1.800.000 kr. framlag til framkvæmdanna og var það talið nægilegt til að hefja framkvæmdir að því gefnu að tækist að afla viðbótarfjármagns og með því að treysta á velvild og lipurð góðra manna. Reynt var að gæta ýtrustu hagkvæmni í öllum hlutum og tókst það nokkuð vel.

Framkvæmdin gekk vel í heildina og verður gerðið mikil bót fyrir þá fjölmörgu sem þarna fara um. Góð aðstaða er oft lyftistöng fyrir þá starfsemi sem hana nýtir. Þarna eru oft á ferð ferðaþjónustuaðilar með stóra hópa ferðamanna og er það góð kynning á sveitum landsins þegar vel er tekið á móti þeim sem ber að garði.