Nýr og hestvænn leiðari íþróttadómara

27. janúar 2014
Fréttir
Af fundinum um helgina / isibless.is
Á vef isibless.is í dag, er greinargóð úttekt á þeim breytingum sem er að finna í nýjum leiðari fyrir íþróttadómara sem kynntur var á endurmenntunarnámskeiði Hestaíþróttadómarafélags Íslands (HÍDÍ) um helgina. Það var Þorgeir Guðlaugsson alþjóðlegur dómari og meðlimur sportdómaranefndar FEIF sem kynnti leiðarann, sem á m.a. að gera íþróttina hestvænni.

Á vef isibless.is í dag, er greinargóð úttekt á þeim breytingum sem er að finna í nýjum leiðari fyrir íþróttadómara sem kynntur var á endurmenntunarnámskeiði Hestaíþróttadómarafélags Íslands (HÍDÍ) um helgina. Það var Þorgeir Guðlaugsson alþjóðlegur dómari og meðlimur sportdómaranefndar FEIF sem kynnti leiðarann, sem á m.a. að gera íþróttina hestvænni.

Við gefum Þorgeiri orðið:

"Á fundinum voru kynnt drög að nýjum leiðara fyrir íþróttadómara sem tekur gildi nú í vor en gamli leiðarinn var að stofni til frá því 2000 og í mörgu úr takti við nýja tíma. Undanfarin þrjú ár hefur vinnuhópur á vegum dómaranefndar FEIF unnið að þessu verkefni og fengið til liðs við sig fjölmargt af okkar helsta kunnáttufólki úr nánast öllum geirum hestamennskunnar. Megin markmiðið var að gera íþróttina hestvænni, leggja aukna áherslu á þátt reiðmennskunnar og að gera samspil knapa og hests að grundvallarviðmiði allra dómstarfa. Þá var einsýnt að nýr leiðari yrði að endurspegla nútímaleg viðhorf til þjálfunar og byggja á þeirri auknu kunnáttu sem menn orðið hafa á þjálfun, líkamsbeitingu og hreyfingafræði hestsins. Að lokum hefur verið stefnt á að leiðarinn verði skilvirkari og auðveldari í notkun fyrir dómara. 

Í uppsetningu er nýi leiðarinn ólíkur þeim gamla að því leyti að stigunarkerfið byggir ekki lengur á lýsingu á sýningunni í heild sinni, heldur lýsingu á nokkrum völdum lykilatriðum sem sem dómarar verða að taka afstöðu til. Með þessu er reynt að tryggja að öll þessi lykilatriði verði tekin inn í dóminn en gleymist ekki eins og nú vill brenna við. 

Þessi lykilatriði eru: 

1) Reiðfærni og samband, 
2) taktur og jafnvægi, 
3) mýkt og slökun, 
4) form og hreyfingar og 
5) útfærsla. 

Dómurum er nú ætlað að leggja mat á hvert þessara atriða og það atriði sem lakast er ákvarðar það einkunnabil sem hægt er að gefa. Hér með er leitast við að aðeins þær sýningar sem hafa öll þessi atriði í góðu lagi verði verðlaunaðar með góðri einkunn og að dómarar sjái verulega ágalla ekki lengur í gegnum fingur sér. Þannig geta sýningar þar sem dómara þykir t.d takti, jafnvægi eða reiðmennsku ábótavant ekki fengið háa einkunn þó önnur lykilatriði, eins og fótaburður og fas sé með afbrigðum gott. Vonast er til þess að dómar verði með þessu heilsteyptari og sanngjarnari gagnvart þeim keppendum sem eru að leysa verkefni sitt vel af hendi þegar á það heila er litið."

Á vef FEIF er að finna þá hugmyndafræði sem liggur að baki nýja leiðaranum. Smellið hér.