Nýr leiðari fyrir útslitakeppni

30. mars 2009
Fréttir
Sigurbjörn á Stakki frá Halldórsstöðum.
Nýr leiðari fyrir úrslit í gæðingakeppni mun líta dagsins ljós innan skamms. Sigurbjörn Bárðarson, formaður fræðslunefndar LH, hefur verið með leiðarann í smíðum um nokkrt skeið og kynnt hann á upprifjunarnámskeiðum gæðingadómara. Sigurbjörn segir að leiðarinn muni hafa töluverðar breytingar í för með sér. Nýr leiðari fyrir úrslit í gæðingakeppni mun líta dagsins ljós innan skamms. Sigurbjörn Bárðarson, formaður fræðslunefndar LH, hefur verið með leiðarann í smíðum um nokkrt skeið og kynnt hann á upprifjunarnámskeiðum gæðingadómara. Sigurbjörn segir að leiðarinn muni hafa töluverðar breytingar í för með sér.

„Það hefur fram að ekki verið til sérstakur leiðari fyrir úrslitakeppnina sem slíka,“ segir Sigurbjörn. „Við höfum stuðst við hinn almenna leiðara fyrir gæðingakeppnina, sem í raun var ekki saminn með úrslitakeppnina í huga. Ég hef verið með þennan leiðara í smíðum og kynnt hann á upprifjunarnámskeiðunum undanfarið og fengið athugasemdir frá dómurum. Það er eitt upprifunarnámskeið eftir, sem verður haldið á Hólum 7. apríl. Eftir það ætti fljótlega að vera hægt að birta leiðarann á lhhestar.is.“

Munum við sjá breytingar á úrslitakeppninni þegar leiðarinn verður tekinn í notkun?

„Já, þetta eru það miklar breytingar. Leiðarinn verður tekinn í notkun núna strax í vor og að er nauðsynlegt fyrir keppendur að kynna sér hann um leið og hann verður birtur, sem ætti að geta orðið innan skamms.·

Þið senduð dómurum heimaverkefni á DVD diski fyrir upprifjunarnámskeiðin nú. Hefur það skilað sér á einhvern hátt?

„Já, ég er mjög ánægður með þessa tilraun og tel að hún hefi heppnast. Dómurum var uppálagt að dæma hrossin á DVD diskinum heima og gefa einkunnir, og síðan að rökstyðja þær. Það þýddi að þeir urðu að lesa leiðarann og fara eftir honum. Sem er auðvitað aðal atriðið. Við eigum að dæma eftir leiðaranum en ekki eftir eigin tilfinningu eða geðþótta. Þetta skilaði sér vel. Fólk kom nú undirbúið til leiks, sem skilaði sér í markvissari vinnubrögðum. Að loknum námskeiðunum verða síðan öll göng sett inn í tölvuforrit, sem var samið sérstaklega fyrir þessi próf og gerir alla úrvinnslu auðveldari og markvissari.“

Þannig að það eru jákvæðir hlutir að gerast hjá gæðingadómurum?

„Ég held mér sé óhætt að taka undir það. Við viljum gera hlutina vel og það er allstór hópur sem vill leggja á sig meiri vinnu til þess að bæta sig. Ég geri mér líka grein fyrir því að það eru einhverjir sem ekki eru tilbúnir til þess og kjósa að hætta. En í staðinn ættum við þá að verða með hóp gæðingadómara sem hefur metnað og ástríðu til að standa sig vel og þróa gæðingakeppnia.“