Niðurstöður kynbótasýninga dagsins

08. ágúst 2023
Fréttir

Nú var að ljúka forkynningu kynbótasýninga. Við áttum sex fulltrúa í dag sem allir stóðu sig frábærlega. Fyrst í braut var Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir en hún mætti með hryssuna Ársól frá Sauðanesi. Sýningin hjá Aðalheiði og Ársól var glæsileg og einkunn upp á 8,38 vel verðskulduð og skilaði Ársól efstri. Í flokki fimm vetra stóðhesta var okkar fulltrúi Höfði frá Bergi sýnandi Þorgeir Ólafsson. Þeir áttu einnig glæsilega sýningu og hlutu  8,45 í aðaleinkunn og urðu þar með efstir í flokki fimm vetra stóðhesta, fyrir yfirlit.

Hrönn frá Fákshólum og Jakob Svavar Sigurðsson voru fulltrúar okkar í flokki 6. vetra hryssna.  Hrönn og Pála vom vom Kronshof voru jafnar í efsta sæti í flokk 6 vetra hryssna fyrir mótið með 8,55 í einkunn. Hrönn og Jakob áttu glæsilega sýningu og enduðu efst með 8,6 fyrir yfirlit. Í flokki 6 vetra stóðhesta var það Geisli frá Árbæ og Árni Björn Pálsson sem voru okkar fulltrúar. Þeir áttu flotta sýningu sem skilaði þeim 8,52 í aðaleinkunn. Þeir eru því efstir fyrir yfirlit ásamt Hraða frá Skovhuset sem einnig hlaut 8,52 í dag.

Í flokki 7 vetra og eldri hryssna fengum við að sjá Kötlu frá Hemlu II, sýnandi var Árni Björn Pálsson þau eru hlutu 8,75 í aðaleinkunn. Sýningin þeirra var einkar vel heppnuð og skilaði þeim efstum fyrir yfirlitið. Síðastir voru Hersir frá Húsavík og Teitur Árnason, þeir fylgdu eftir árangri íslenska hópsins með glæsilegri sýningu og hlutu 8,55 í aðaleinkunn og enduðu þar með næstefstir fyrir yfirlitið.

Það verður því einkar spennandi að fylgjast með hópnum á morgun, miðvikudag og fimmtudag þegar seinni umferðirnar fara fram. Önnur umferð 5 og 6 vetra hefst kl 16:00 miðvikudaginn og önnur umferð 7 vetra og eldri fer fram á fimmtudag kl 17:00. Hægt er að fylgjast með nánari rásröð í IceTest og HorseDay öppunum.