Námskeið í TREC og að halda TREC mót

04. september 2020
Fréttir

Námskeið í TREC verður haldið þriðjudaginn 22.september kl 18-21, í sal E á 3. hæð, íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Frítt er inn á námskeiðið. Farið verður yfir allt sem viðkemur TREC bæði námskeið og mótahaldi.
Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér.

Anna Sonja Ágústsdóttir, hestafræðingur og leiðbeinandi, hefur síðan 2014 haldið utan um TREC starf hjá Hestamannafélaginu Funa í Eyjafjarðarsveit. Hún ætlar nú að leggja land undir fót og gera sér ferð í borgina til að miðla reynslu sinni af því að vera með TREC námskeið og halda TREC keppnir. Námskeiðið hentar því vel reiðkennurum og leiðbeinendum, sem og þeim sem hafa áhuga á að halda utan um TREC starf hjá sínu félagi.

TREC hentar mjög breiðum hópi knapa, bæði aldurs- og getulega séð og er kærkomin viðbót við hinar hefðbundnu hringvallargreinar. TREC starf er mjög líklegt til að virkja hinn almenna hestamann til þess að taka þátt í félagsstarfinu. Hjá Funa hefur það einnig verið stór þáttur í að sporna við brottfalli unglinga úr hestamennsku, sérstaklega hjá þeim sem ekki hafa áhuga eða hestakost til að keppa í hringvallargreinum. TREC getur því verið heilmikil lyftirstöng fyrir félagsstarfið og hvetjum við öll hestamannafélög til að nýta sér þetta tækifæri til að koma af stað TREC starfi hjá sér eða efla það starf sem fyrir er.

En hvað er TREC?
TREC er spennandi grein innan hestaíþróttanna sem er mjög vinsæl erlendis og er byrjuð að ryðja sér til rúms hér á landi. Greinin er öðruvísi, spennandi og hestvæn og byggir á almennri hestamennsku. Mikil fjölbreytni einkennir TREC en það byggir fyrst og fremst á trausti milli manns og hests og hentar fyrir flesta aldurshópa og getustig.

Keppni í TREC samanstendur af þremur þáttum sem keppt er í á tveimur dögum og miðar að því að finna sterkasta parið að þessum þáttum loknum. Þessir þættir eru víðavangsratleikur, þrautabraut og gangtegundakeppni (tímataka á hægu stökki og hröðu feti).

TREC keppnin á uppruna sinn að rekja til áttunda áratugatugs síðustu aldar í Frakklandi sem nokkurskonar próf fyrir leiðsögumenn í hestaferðum og hesta þeirra. TREC skammstöfun fyrir franska heitið „Technique De Randonnée Equestre De Compétition“ en á ensku heitir keppnin „Equestrian Trail Riding Techniques Competition"

Hestamannafélagið Funi hefur verið brautryðjandi í TREC á Íslandi og haldið nokkrar keppnir á undanförnum árum, aðallega fyrir unglinga. Sumarið 2017 hélt félagið í fyrsta skipti keppni í fullri lengd, þ.e. sem innihélt alla þrjá þætti TREC. Alþjóðlegu reglurnar hafa verið hafðar til viðmiðunar en allar greinarnar útfærðar eftir íslenskum aðstæðum og mannskap hverju sinni.