Mótsstjóri ráðinn á LM2018

06. júní 2017
Þórdís Anna ásamt Ás frá Hofsstöðum Gbæ.

Stjórn Landsmóts 2018 ehf. hefur ráðið Þórdísi Önnu Gylfadóttur sem mótsstjóra Landsmóts hestamanna sem fram fer í Reykjavík 1.-8. júlí 2018.

Þórdís hefur áður komið að undirbúningi og framkvæmd Landsmóta og verður Landsmótið í Reykjavík 2018 það fjórða sem hún vinnur að.

Þórdís er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum, sem og viðburðarstjórnandi frá sama skóla. Hún hefur einnig lokið meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Þórdís starfar í dag sem reiðkennari og mun innan skamms hefja störf hjá Íslandsstofu sem verkefnastjóri markaðasverkefnis um íslenska hestinn sem ber heitið „Horses of Iceland“. Þórdís hefur áður starfað hjá Landssambandi hestamannafélaga, hjá Landsmóti ehf. og hjá Háskólanum á Hólum.

Þórdís er uppalin Garðbæingur og er félagsmaður í hestamannafélaginu Spretti þar sem hún stundar sína hestamennsku og hrossarækt ásamt fjölskyldu sinni frá Hofsstöðum í Garðabæ.

Með góðri kveðju,

Áskell Heiðar Ásgeirsson
Framkvæmdastjóri LM 2018