Mikið djöfull getur fennt

02. desember 2008
Fréttir
Á heimasíðum hestamanna- félaganna kennir ýmsra grasa. Á www.sorli.is er að finna kvæði eftir Elías M V Þórarinsson um íslenskt, vestfirskt fannfergi. Dóttir Elíasar, Kristín Auður, heldur úti veitingasölu í Sörla og lagði heimasíðunni til kvæðið.Á heimasíðum hestamanna- félaganna kennir ýmsra grasa. Á www.sorli.is er að finna kvæði eftir Elías M V Þórarinsson um íslenskt, vestfirskt fannfergi. Dóttir Elíasar, Kristín Auður, heldur úti veitingasölu í Sörla og lagði heimasíðunni til kvæðið. Á heimasíðum hestamannafélaganna kennir ýmsra grasa. Á www.sorli.is er að finna kvæði eftir Elías M V Þórarinsson um íslenskt, vestfirskt fannfergi. Dóttir Elíasar, Kristín Auður, heldur úti veitingasölu í Sörla og lagði heimasíðunni til kvæðið.

Þótt kvæðið sé ekki um hross er það óneitanlega hressilegt innlegg í kreppubölmóðinn sem nú er að ríða öllu á slig. Ekkja Elíasar, Kristjana Vagnsdóttir, er fjallhress kona og segir að það sé engin kreppa hjá sér vestur á Þingeyri. Þar hafi alltaf verið kreppa hvort sem er og engin breyting á því nú. Kristjana gaf góðfúslegt leyfi til að birta kvæðið.

Kristín Auður segir: „Þetta er saga kotbóndans sem er orðinn frekar leiður á snjókomunni sem aldrei ætlar að linna. Sagan gerist 1983 en þá hafði kyngt niður snjó svo vikum skipti. Það var nánast ógerlegt að koma votheyinu á milli skepnuhúsanna vegna fannfergis. Stelpnastóðið sem bóndi nefnir í kvæðinu voru í raun heimasæturnar á bænum. Bóndi var ráðagóður með afbrigðum. Hann fékk sér nokkra togarakassa batt band í þá, fyllti þá síðan af votheyi og beitti síðan stelpnastóðinu fyrir. Með þessum hætti var hægt að koma öllu heyinu í sauðakjaftana.“


Mikið djöfull getur fennt

,,Mikið djöfull getur fennt“.
Dag eftir dag og nótt eftir nótt
fellur mjöllin viðstöðulaust
niður á þessa óendanlegu flatneskju
sem eitt sinn var jörð,
með blómskrúði og grænu grasi.
en liggur nú sem endalaus óskapnaður,
kennileita- og ummerkjalaus
svo langt sem augað eygir.
,,Mikið djöfull getur fennt“.
Já, ennþá spáir Veðurstofan
suðaustan til suðvestan átt
og vaxandi snjókomu.
Fyrir utan gluggaborurnar
iðar þetta endalausa, ógegnsæja
dúnlétta drífukóf.
Þar sem harðfrosnir dropar himinsins
eltast í blindingjaleik hvor við annan.
,,Mikið djöfull getur fennt“.
Hvernig var staða kotbóndans?
Ráðvilltur og reikandi
skjögrar hann á milli
kaffenntra kofaskriflanna,
en ófærðin er slík
að neftóbaksmengaðarnar nasirnar
missa annan hvorn andardrátt
og kjafturinn fyllist af fönn.
,,Mikið djöfull getur fennt“.
Það verður æ verra og verra
að koma viðbjóðslegri votheysslepjunni
í síjórtrandi sauðakjaftana
þrátt fyrir stelpnastóðið
sem brýst um í ófærðinni.
Strekkir í böndum á stolnum kassa
frá togaraútgerð H.D. Dýrfirðinga,
veltandi um hrygg með sköllum
og skammyrðum.
,,Mikið djöfull getur fennt“.
En karlbjálfinn bægslast eftir
með hálftóman heypokann,
sökkvandi á kaf í hverju spori,
rennandi ellimóðum augum
upp í þetta óraunverulega umhverfi,
horfandi á ekki neitt
utan rassgatið á sjálfum sér.
Slík er andskotans ófærðin.
,,Mikið djöfull getur fennt“.

Elías M V Þórarinsson orti kvæðið þegar hann bjó á Sveinseyri við Dýrafjörð. Árið 2003 var gefið út ljóðsafn eftir hann í fjórum bindum uppá 1300 blaðsíður, tíu árum eftir að hann lést. Heitir það Andbyr.