Meistarar á mögnuðum hestum

28. mars 2014
Fréttir
Hansi og Síbíl. Mynd: eidfaxi.is
Nú þegar vika er í Ístölt þeirra allra sterkustu eru línur aðeins farnar að skýrast varðandi hestakost knapa. Áhorfendur verða ekki sviknir af þeirri töltveislu sem framundan er og við munum næstu daga kynna keppendur til leiks.

Nú þegar vika er í Ístölt þeirra allra sterkustu eru línur aðeins farnar að skýrast varðandi hestakost knapa. Áhorfendur verða ekki sviknir af þeirri töltveislu sem framundan er og við munum næstu daga kynna keppendur til leiks.

Íþróttaknapi síðasta árs, Jakob Svavar Sigurðsson mætir með jarpa hryssu úr ræktun Helga Jóns Harðarsonar og er hún í eigu Glódísar dóttur Helga. Hryssan heitir Helga-Ósk og er klárhryssa með 1.v fyrir hæfileika. Helga-Ósk er stórættuð, undan Orra frá Þúfu og Hendingu frá Úlfsstöðum.

Sigurvegari Stjörnutölts á Akureyri var hin unga Anna Kristín Friðriksdóttir. Hún er með þrautreyndan keppnishest, Glað frá Grund sem er afar sterkur fjórgangari og töltari. Það verður gaman að sjá þau spreyta sig á svellinu hér sunnan heiða.

Annar ungur knapi að norðan, Eyrún Ýr Pálsdóttir frá Flugumýri, vann sér inn þátttökurétt á Ístöltinu með því að sigra svo glæsilega opna flokkinn á Svellköldum konum um daginn á hinum jarpa Reyni frá Flugumýri. Flott par þar á ferð.

Valdimar Bergstað var Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum á síðasta ári á Tý frá Litla-Dal. Hann mætir með Tý enda magnaður hestur þar á ferð, sterkur fimmgangari og T2 töltari svo eitthavð sé nefnt.

Það var Sprettarinn Jón Ó. Guðmundsson sem sigraði Karlatölt Spretts um daginn, sem var geysisterkt mót í nýju Sprettshöllinni. Reiðskjóti Jonna var hinn mjög svo efnilegi Aronssonur Draumur frá Hofsstöðum. Þeir mæta án efa vaskir til leiks.

Á Svínavatni var haldið magnað mót á dögunum og sigurvegari tölts og B-flokks á því móti var Hans Þór Hilmarsson á Síbíl frá Torfastöðum, sem er glæsileg móálótt 1.v klárhryssa úr ræktun Drífu og Ólafs á Torfastöðum í Biskupstungum.

Nýbakaður sigurvegari töltsins í KS deildinni hefur staðfest þátttöku sína. Það er hinn síkáti Bjarni Jónasson með hina litfögru og flinku Randalín frá Efri-Rauðalæk, sem er úr ræktun Baldvin Ara og fjölskyldu á Akureyri sem eiga ófá keppnishross í braut um þessar mundir. Þau eru sterkt par sem gaman verður að sjá dansa á ísnum.

Miðasalan fer í gang strax eftir helgi. Fyrir þá sem koma lengra að er hægt að kaupa miða í gegnum síma hjá LH, sími 514-4030.

Takið laugardagskvöldið frá kæru hestamenn og missið ekki af veislunni!

Landsliðsnefnd LH