Meistaradeild - Auðsholtshjáleiga

05.01.2012
Senn líður að fyrsta móti Meistaradeildar í hestaíþróttum 2012 en keppni hefst fimmtudaginn 26. janúar á fjórgangi. Liðin eru öll komin á hreint og verða þau kynnt á næstu dögum. Senn líður að fyrsta móti Meistaradeildar í hestaíþróttum 2012 en keppni hefst fimmtudaginn 26. janúar á fjórgangi. Liðin eru öll komin á hreint og verða þau kynnt á næstu dögum.

En fyrsta liðið sem kynnt er til leiks er lið Auðsholtshjáleigu. Nokkrar breytingar hafa átt sér stað á liðinu frá því í fyrra en það er skipað Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur, liðsstjóra, Eyvindi Mandal Hreggviðssyni, Hauki Baldvinssyni og Lenu Zielinski.

Þetta er þriðja ár Auðsholtshjáleigu í deildinni en það fyrsta sem það er ekki eingöngu skipað konum. Liðið hefur sett svip sinn á deildina með prúðmannlegri framkomu og glæsilegri reiðmennsku. Meistaradeildin býður lið Auðsholtshjáleigu velkomið til leiks.

Þórdís Erla Gunnarsdóttir, liðsstjóri, er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hún starfar við tamningar á Grænhóli. Þórdís Erla hefur verið viðloðandi keppni frá blautu barnsbeini en hefur jafnframt verið að koma sterk inn í kynbótasýningum síðustu ár.

Eyvindur Mandal Hreggviðsson er nýliði í deildinni en hann starfar við tamningar á Grænhól í vetur. Eyvindur hefur verið að gera góða hluti í keppni í Svíðþjóð undanfarin ár. Hann er margfaldur sænskur meistari og Norðurlandameistari.

Haukur Baldvinsson er mættur aftur til leiks í Meistaradeildinni eftir smá hlé. Hann hefur verið að gera góða hluti á keppnisvellinum undanfarin ár og er hann nýbakaður Íslandsmeistari i gæðingaskeiði frá því í sumar.

Lena Zielinski hefur verið að gera góða hluti á keppnis- og kynbótabrautinni á undanförnum árum. Hún starfar við tamningar og þjálfun að Efra-Hvoli við Hvolsvöll.

Auðsholtshjáleiga í Ölfusi er það hrossaræktarbú sem oftast hefur hlotið titilinn Ræktunarbú ársins en búið hefur hampað titlinum fimm sinnum, 1999, 2003, 2006, 2008 og 2011. En búið hefur verið tilnefnt til verðlaunanna ellefu sinnum. Eigendur búsins eru þau Gunnar Arnarsson og Kristbjörg Eyvindsdóttir en samhliða búinu reka þau útflutningsfyrirtækið Gunnar Arnarsson ehf. sem er stærst á sínu sviði hér á landi. Aðalbækistöð búsins er á Grænhóli í Ölfusi. Þar er frábær aðstaða til tamninga og þjálfunar sem byggist meðal annars á frábærum reiðleiðum, reiðhöll, hringvelli með beinni braut, hlaupabretti og að sjálfsögðu glæsilegu hesthúsi. Heimasíða búsins er www.horseexport.is