Líkamlegar mælingar á landsliðsknöpum í hestaíþróttum

27. mars 2019
Fréttir

Fyrsta verkefni nýskipaðra landsliðshópa Íslands í hestaíþróttum var þátttaka í líkamlegum mælingum sem fóru fram 25. mars.Mælingar

Knapar í A-landsliðshópi og U21-landsliðshópi komu saman og gerðu líkamlegar æfingar undir stjórn Vilfríðar Fannberg Sæþórsdóttur meistaranema í íþróttafræðum við HR. Mælingarnar eru hluti af samstarfsverkefni LH og Háskólans í Reykjavík. Knaparnir framkvæmdu styrktarpróf á efri og neðri líkama, tóku jafnvægis- og hreyfimynsturspróf ásamt hlaupaþolprófi í lokin. Þátttakan var frábær, stemningin góð og var keppnisskapið mikið á milli knapa.

Mælingar á knöpum eru hluti af breyttu og bættu fyrirkomulagi í afreksstarfi LH. Það er mikilvægt að safna upplýsingum og gögnum um landsliðsknapa í hestaíþróttum, hvar þeir standa líkamlega, þ.e. í formi og líkamlegri hæfni. Framundan er Heimsmeistaramót í sumar og því þarf að huga að öllum þeim þáttum sem koma að því að hámarka afköst og árangur í keppni.