Lífleg umræða um óskemmtilegt umræðuefni

16. mars 2009
Fréttir
Eyjólfur Ísólfsson á Rás frá Ragnheiðarstöðum.
Fjöldi manns sótti málþingið „Út með ágrip“, sem haldið var á Hvanneyri, þrátt fyrir slæma veðurspá, sem rættist aldrei þessu vant. Að sögn Ágústs Sigurðssonar, rektors á Hvanneyri og fundarstjóra ráðstefnunnar, var létt yfir fundargestum, þrátt fyrir að umræðuefnið væri ekkert sérstaklega skemmtilegt. Fjöldi manns sótti málþingið „Út með ágrip“, sem haldið var á Hvanneyri, þrátt fyrir slæma veðurspá, sem rættist aldrei þessu vant. Að sögn Ágústs Sigurðssonar, rektors á Hvanneyri og fundarstjóra ráðstefnunnar, var létt yfir fundargestum, þrátt fyrir að umræðuefnið væri ekkert sérstaklega skemmtilegt.

„Það átti sér stað þarna mjög gagnleg, og að ég tel merk umræða. Það komu fram mörg sjónarmið um hverjir eru helstu orsakaþættir ágripa. Menn eru ekki sammála um hver er aðal orsökin og flestir hallast að því að það séu nokkrir samverkandi þættir sem valdi. Ég held þó að eitt séu menn sammála um og það er að ágrip eru nær alltaf á ábyrgð knapans. Hann hefur það oftast í hendi sér hvort hestur grípur á sig eða ekki, og getur komist hjá því ef hann metur aðstæður og getu hestsins rétt,“ segir Ágúst.

Eins og fram hefur komið eru ágrip mest í kynbótasýningum. Og mest á kynbótasýningum á Landsmótum, þar sem úrval knapa og hrossa er saman komið. Kynbótasýningar voru því ofarlega í umræðunni.

Ýmsir sérfræðingar í hestamennsku fluttu framsögu á ráðstefnunni. Þar á meðal Eyjólfur Ísólfsson, reiðkennari á Hólaskóla. Eyjólfur vakti athygli á því að miklar kröfur um reisingu og fótaburð, og þar af leiðandi fjórtaktað skeið, væri hugsanleg orsök ágripa í kynbótasýningum. Einnig taldi hann að „rennan“, það er að segja hin þrönga braut sem notuð er sem sýningarbraut fyrir kynbótahross, ætti sinn þátt. Hann nefndi sem möguleika að sýna kynbótahross á opnum vangi. Þannig ætti að vera auðveldast að dæma eðliskosti hrossanna.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir, flutti erindi um sár og áverka í munni. Sýndi hún meðal annars myndir af slíkum áverkum, sem mörgum þótti sláandi. Hún sagði að algengustu sár í munni væru ekki vegna tannbrodda. Algengustu sárin væru álagssár vegna stöðugs þrýstings á sama svæði. Örvefurinn fengi ekki súrefni og sár mynduðust sem gætu orðið stór og sársaukafull.

Líflegar umræður áttu sér stað eftir framsöguerindin og stóð fundurinn klukkustund lengur en áætlað var. Eru menn almennt sammála um að nú sé jarðvegur að skapast fyrir breyttum hugsunarhætti varðandi keppni á hestum og velferð hesta í keppni og sýningum.