Leiðin að gullinu - þjálfun reið- og keppnishesta

02. desember 2022
Fréttir

Menntadagur íslenska landsliðsins í hestaíþróttum verður haldinn laugardaginn 10. desember kl. 10:30-15:30 í TM reiðhöllinni í Víðidal.

Benjamín Sandur og Gummi Björgvins ríkjandi heimsmeistarar í skeiðgreinum fara yfir þjálfun og uppbyggingu í upphafi vetrar. Þeir félagar ætla að fjalla um upphaf vetrarþjálfunar reið- og keppnishesta, hvernig best er að haga þjálfun af stað inn í nýtt tímabil almennt og miða það við almenna þjálfun sem passar breiðum hópi hesta og reiðmanna. Hver eru mikilvægustu grunnatriðin? Hvað ber að hafa í huga í upphafi vetrarþjálfunar?

Guðmundur Björgvinsson er ríkjandi heimsmeistari í 250 m skeiði og hefur í gegnum tíðina skapað sér sæti sem einn okkar alfarsælasti kanapi á breiðum grunni í keppni og sýningum kynbótahrossa.

Benjamín Sandur er ríkjandi heimsmeistari í gæðingaskeiði ungmenna og er bráðefnilegur knapi sem vakið hefur athygli á sínum fyrstu árum í fullorðinsflokkum fyrir góða reiðmennsku og flottar sýningar. 

Missið ekki af frábæru tækifæri til þess að fræðast og fá innblástur frá okkar allra bestu knöpum. Þetta er einstakt tækfæri fyrir fróðleiksþyrsta hestamenn að koma og læra, hitta hestamenn og fylgjast með veglegri fræðsludagskrá á vegum landsliðsknapa okkar.

Sýnikennsla verða í gangi yfir allann daginn um mismunandi efni, vegleg veitingasala og ýmiss varningur til sölu á staðnum til styrktar landsliðinu.