Langar þig á Youth Cup?

23. mars 2012
Fréttir
Frá Youth Cup 2010.
Ef þú ert á aldrinum 14-17 ára þá er FEIF Youth Cup kjörið tækifæri fyrir þig til að kynnast hestakrökkum frá öðrum löndum og taka þátt í alvöru keppni á erlendri grundu.  Ef þú ert á aldrinum 14-17 ára þá er FEIF Youth Cup kjörið tækifæri fyrir þig til að kynnast hestakrökkum frá öðrum löndum og taka þátt í alvöru keppni á erlendri grundu. 


Youth Cup er haldið dagana 7.-15.júlí 2012 í Verden í Þýskalandi. Ísland sendir 8 fulltrúa á mótið sem er hrein og tær snilldarupplifun fyrir unglinga í hestamennsku. 

Skila þarf inn umsókn til Landssambands hestamannafélaga til og með 1. apríl hvort heldur sem er á tölvupósti: lh@isi.is  – símbréfi 514 4031 – eða bréfleiðis til okkar að Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Það sem þarf að koma fram í umsókninni er nafn knapa, heimilisfang, símanúmer, mynd og aldur ásamt upplýsingum um hestamannafélag og keppnisreynslu. Einnig þarf að koma fram enskukunnátta og svo þurfa 2 meðmælendur að skrifa nokkrar línur um viðkomandi. Meðmælendurnir mega ekki vera foreldrar umsækjanda. Með í för verður fararstjóri og liðsstjóri úr æskulýðsnefnd Landssambandsins. 

Kostnaður vegna þátttöku í mótinu er 640 evrur auk kostnaðar við kaup á flugmiða. Innifalið í kostnaðinum er gisting, fæði, kennsla, hesthúspláss og skráningargjöld fyrir keppendur. Aukagreiðslur eru hugsanlega fyrir flutning á hrossi á mótsstað, leiga á reiðtygjum og dýralækniskostnaður. 

Þátttakaendur geta fengið leigða hesta af mótshöldurum eða mega útvega þá sjálfir. LH er í sambandi við aðila í Þýskalandi sem gætu hugsanlega útvegað hesta.  Athugið að þetta er alþjóðlegt mót og allir hestar þurfa að vera bólusettir samkvæmt reglum FEIF. Upplýsingar um það er hægt að sjá á heimasíðu samtakanna, www.feif.org Ef umsækjandi hefur aðgang að hesti vinsamlega látið það koma fram í umsókninni.

Æskulýðsnefnd LH hvetur áhugasama að setja sig í samband við skrifstofu LH, sjá upplýsingar hér að ofan. Einnig er hægt að kynna sér mótið á www.feifyouthcup2012.de og inná vef LH, www.lhhestar.is undir Æskulýðsmál.

Æskulýðsnefnd LH