Landsþing á Akureyri

Frá landsþingi 2014 á Selfossi.
Frá landsþingi 2014 á Selfossi.

Landsþing LH verður haldið dagana 12. og 13. október n.k. í boði hestamannafélagsins Léttis. Rétt til þingsetu eiga 188 þingfulltrúar frá 42 hestamannafélögum.

Kjörbréf verða send formönnum hestamannafélaganna fljótlega ásamt upplýsingum um gistingu á Akureyri. Bókun á gistingu fer alfarið fram í gegnum skrifstofu LH á eyðublöðum sem verða send út síðar.

Á meðfylgjandi blaði er yfirlit yfir fjölda félaga í LH 2018 og fjölda þeirra þingfulltrúa sem rétt eiga til þingsetu. Það eru 75 félagsmenn á bak við fyrsta þingfulltrúa, 76-150 á bak við annan þingfulltrúa, 151-225 á bak við þann þriðja o.s.frv.

Tillögur og önnur málefni sem hestamannafélögin óska eftir að tekin verða fyrir á þinginu verða að berast skrifstofu LH í síðasta lagi 14. september 2018. Kafli 1.2 fjallar um landsþing sambandsins og er formönnum og þingfulltrúum bent sérstaklega á að kynna sér hann vel sem og allan 1.kafla laganna. Þar kemur m.a. fram:

„1.2.2 Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu, skulu tilkynnt stjórn LH minnst 4 vikum fyrir þingið. Þá skal stjórn LH tilkynna sambandsaðilum dagskrá þingsins ásamt tillögum og lagabreytingum sem borist hafa í síðasta lagi  2 vikum fyrir þingið.”

„1.4.1 Tilkynning um framboð til embættis formanns eða til stjórnar LH skal berast kjörnefnd minnst hálfum mánuði fyrir landsþing LH. Sitjandi formaður og aðrir stjórnarmenn skulu tilkynna kjörnefnd hvort þeir gefi kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa, minnst fjórum vikum fyrir landsþing LH.“

Skrifstofa LH veitir allar upplýsingar um þingið í síma 514 4030 eða með tölvupósti á netfangið lh@lhhestar.is

Stjórn LH