Landsmót íslenska hestsins

12.02.2010
Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamannafélaga
Í síðasta bændablaði birtist grein eftir Bjarna Þorkelsson hrossaræktanda á Þóroddstöðum undir yfirskriftinni “Landsmót í Reykjavík – nei takk”.  Í upphafi greinar sinnar fer Bjarni yfir félagskerfi okkar hestamanna og nauðsyn þess að skerpa línur þar. Í síðasta bændablaði birtist grein eftir Bjarna Þorkelsson hrossaræktanda á Þóroddstöðum undir yfirskriftinni “Landsmót í Reykjavík – nei takk”.  Í upphafi greinar sinnar fer Bjarni yfir félagskerfi okkar hestamanna og nauðsyn þess að skerpa línur þar. Ég tel að það sé fullreynt á því sviði eins og lögjöfin er í kringum íslenska hestinn í dag og ekki á valdi okkar hestamanna að gera miklar breytingar á því enda margreynt, heldur sé komið að þeim tímapunkti að stjórnvöld svari því hvernig þau vilji sjá umgjörðina um íslenska hestinn.  Hann hefur frá upphafi verið sameign okkar allra og því réttlætismál að  allir komi jafnt að ákvörðunartöku er varðar málefni tengd hestinum, þ.e. stuðningi frá ríki, skattlagningu sveitarfélaga og öðru er snýr að umgjörð hestsins.  Í landinu er svo félagafrelsi varið í stjórnarskrá og þar geta menn starfað í eins mörgum félögum og þeir kjósa í kringum hestinn, en allir hljóta að vera sammála um að við viljum efla hestinn og virðingu hans sem mest bæði innanlands sem utanlands og jafnt í sveit sem borg.
Ég ætla því ekki að svara grein Bjarna heldur fara yfir málið frá hlið Landssambands hestamannfélaga.

Landsmót hafa verið haldin frá 1950, til skiptist á Norðurlandi og Suðurlandi.  Á Suðurlandi hafa staðirnir verið: Skógarhólar, Hella og Reykjavík. Á Norðurlandi hafa staðirnir verið: Þveráreyrar, Hólar, Vindheimamelar og Melgerðismelar.
Komið hafa upp vangaveltur hvers vegna stjórn Landsambands hestamannafélaga hafi einhliða tekið ákvarðanir um landmótsstaði frá árinu 1950. Að vísu eru undantekningar á því þar sem þetta var um tíma í höndum Landsþinga LH, en þá hófst mikil togstreita milli manna og var horfið frá því fyrirkomulagi og staðarvalið sett í hendur stjórnar LH aftur, af fenginni reynslu.
Ástæðan fyrir því að staðarval Landsmóta er í höndum stjórnar LH er söguleg og gott að rifja upp hér örstutt en eins og flestir vita eru sextíu ár liðin frá fyrsta Landsmótinu.  Milli áranna 1940 og 1950 var allt starf í kringum hestinn að fjara út í sveitum landsins og ráðunautur Búnaðarfélagsins settur í hálft starf og í kennslu á Hvanneyri.
Það var á þeim tímapunkti sem framsýnir menn tóku höndum saman og ákváðu að stofna hestamannafélög hringinn í kringum landið með LH sem samnefnara, til að standa vörð um ræktun og sýningar á íslenska gæðingnum.
Þar fór fremstur í flokki Gunnar Bjarnason, ráðunautur Búnaðarfélagsins, hvattur áfram af mörgum mætum mönnum sem við hestamenn eigum mikið að þakka í dag.  Eftir stofnun LH og fyrstu mótin höfðu verið haldin lagði Gunnar mikla áherslu á að hnífurinn mætti ekki ganga á milli LH og Búnaðarfélagsins ef ekki ætti illa að fara.  Gott væri fyrir marga að lesa yfir sögu Gunnars og hans miklu baráttu fyrir hestinn bæði hér heima og erlendis.

Í framhaldi af þeirri ákvörðun Landsambands hestamannafélaga að halda Landsmót annaðhvert ár var ákveðið að stofna félag sem héldi utan um rekstur landsmóta, Landsmót ehf. Tilgangurinn með því var m.a. að flytja reynslu milli móta, minnka rekstrarlega áhættu, sækja styrktaraðila auk fjölmargra annarra þátta. Bændasamtökin eru eigendur að 1/3 Landsmóts ehf. og LH 2/3.  Við stofnun félagsins var ákveðið að breyta í engu í hlutverkaskiptum LH og BÍ, þ.e. LH sæi áfram um allt er lög og reglur þess kveða á um og BÍ um það, er þeirra lög og reglur kveða á um.  Menn voru sammála um að Landsmót ehf., ætti ekki að koma að koma nálægt hinum félagslega þætti.
 Við ræddum það einu sinni við forsvarsmenn BÍ hvort þeir vildu koma  að staðarvali, en þeir báðu okkur að halda BÍ algerlega fyrir utan þá pólitík enda ekki á þeirra könnu.

Stjórn LH hefur reynt að gæta þess að fara að lögum og reglum þegar hún hefur valið landsmótsstaði og reynt að tryggja að þeir staðir stæðu sterkari eftir mót en fyrir.
Þegar samið var við Rangárbakkamenn fyrir mótið 2008 var þetta haft að leiðarljósi og reynt að semja þannig að svæðið yrði sem næst skuldlaust eftir mót.  Var margtekið fram að ekki þyrfti reiðhöll til að halda Landsmót á Gaddstaðaflötum en að sjálfsögðu gætu heimamenn reist sína reiðhöll. LH eða Landsmót ehf. gerðu ekki kröfur um hana fyrir Landsmót.  Menn tóku hinsvegar aðra afstöðu og reistu reiðhöll af metnaði og bera á því  ábyrgð. Ódrengilegt er að koma þeirri ábyrgð yfir á aðra.

Sama aðferð hefur verið höfð að leiðarljósi við samninga á Vindheimamelum að svæðið verði skuldlaust eftir mót og því styrkur fyrir hestamennskuna á því svæði.
 
                                    Peningarleg sjónarmið

Mikið er rætt um fjárfestingar á þessum stöðum og er rétt að þar verða hestamenn að gæta sín, þannig að  fjárfestingar nýtist sem best.  Það reynum við að hafa til hliðsjónar.
  Ef  markmið væri það eitt að fara vel með það fjármagn sem okkur er trúað fyrir og byggja einungis upp þar sem fjárfestingin nýtist sem best, yrði aðeins einn staður byggður upp og þá helst í  þéttbýli eða sem næst  því.
Sú stefna hefur ekki verið mótuð hjá LH en ýmsar hugmyndir eru í gangi eins og t.d. að a) hafa einn landsmótsstað
b) vera með tvo landsmótsstaði fyrir sunnan og einn fyrir norðan
c) eða þá að fara þá leið sem við höfum búið við, að vera til skiptist fyrir norðan og sunnan. Dreifa Landsmótum um landið og reyna þannig að hjálpa til við uppbyggingu sem nýtist og er sjálfbær milli móta um leið og við vekjum athygli á íslenska hestinum.

                        Hversvegna viðræður um Landsmót í Reykjavík?

Mikill taugatitringur hefur orðið í kringum þá ákvörðun stjórnar LH  að ganga til samninga við hestamannafélagið Fák í Reykjavík.  Ætla ég að reyna að færa rök fyrir því hvers vegna sú ákvörðun var tekin.
Hvað þarf til að halda gott Landsmót og hvað þarf að vera til staðar?

Í Víðidalnum er athafnarsvæði stærsta hestamannafélags landsins og mikil mannvirki þar til staðar sem eru í stöðugri notkun allt árið um kring og því góð nýting á þeim.

Hestamannafélagið Fákur er elsta hestamannafélag landsins og lagði mikið að mörkum þegar íslenski hesturinn var hafinn til vegs og virðingar á ný, með því að hafa forustu um stofnun og rekstur LH fyrir sextíu árum.

 Vellir þar eru jafn góðir og annarsstaðar á landinu og því ætti aðstaða til sýningar á okkar bestu hrossum að vera mjög góð.

Aðstaða til að hýsa hross er hvergi eins góð, mikið er af góðum húsum til staðar á öllu stór-Reykjarvíkursvæðinu og reynt verður að sjá þeim fyrir beitarhólfum sem þess óska.
 
Aðstaða fyrir eigendur og knapa á að vera  jafn góð eða betri en á öðrum stöðum.

Þjónusta við hesteigendur sem mótsgesti ætti að geta verið jafngóð á þessu svæði og öðrum eða betri.

Mörg stór félög eru á stór Reykjarvíkursvæðinu.

Næg bílastæði fyri keppendur og áhorfendur.

Þegar við höfum notið þess sem íslenski hesturinn hefur upp á að bjóða með tilheyrandi dagskrá fram á kvöld þá eru miklir möguleikar á fjölbreyttri gistingu þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og mætt úthvíldir að morgni.

Skipulagt hefur verið svæði í Víðidalnum ekki langt frá Elliðaánum fyrir um 500 hjól- og tjaldhýsi ásamt venjulegum tjöldum. Allir sem til þekkja vita að Elliðaárnar og Víðidalurinn eru friðsælt og fallegt útivistarsvæði. Þannig að þar ætti að vera auðvelt að láta sér líða vel.

Aðstaða fyrir hestamannafélögin verður tryggð hvort sem þau kjósa að vera í tjaldbúðum eða húsnæði.

Vilji er til að bjóða fólki upp á reiðtúra á milli félaganna á þessu svæði til að kynnast þeirra útisvistarsvæði sem sum hver eru mjög falleg og gefandi.

Möguleikarnir til að markaðsetja Landsmót í Reykjavík eru svo miklir, og hafa margar hugmyndir vaknað, m.a. að helga hestinum heila viku tengda ýmsum þáttum sem honum tengjast í menningu og listum og fl.  Möguleikarnir til að halda gott mót sem gæti valdið straumhvörfum fyrir okkur í kynningu og umgjörð móta hér á landi er til staðar.
  Stærsta markaðssvæði landsins er á þessu svæði og gefur ótal sóknarfæri.
 Það er því sérstakt ef menn vilja ekki nýta það tækifæri sem gefst við að halda Landsmót sem býður upp á mikla möguleika í markaðsetningu, hætta að líta á Landsmótið árið 2000 í Reykjavík sem mistök þó þar hafi nokkrir þættir farið úrskeiðis.  Það hafa verið gerð mistök á fleiri stöðum.  Margt tókst líka vel og margir voru ánægðir á LM 2000.  Rúmlega tíu þúsund manns voru í brekkunni á lokadegi mótsins.
  Góðir hestamenn tækifærið er til staðar en það er okkar að nýta það.
Hvers vegna sjá kollegar okkar úti í FEIF  mikla möguleika fólgna í því að fara með Heimsmeistaramót íslenska hestsins til höfuðborgar Þýskalands Berlín, árið 2013?  Skildi það vera vegna þess að þeir sjá mörg tækifæri í markaðsetningu íslenska hestsins fólgna í því?
Með allt þetta í huga hefði það verið dónaskaður að tala ekki við Fáksmenn og sjá hvort  hugmyndir þeirra um Landsmót séu á rökum reistar.
Það er enginn að tala um að fara með öll Landsmót á stór-Reykjavíkursvæðið.  Að fara með mót þangað á tíu til tuttugu ára fresti er hins vegar mjög skynsamlegt ef rekstrarlegur grundvöllur er til staðar, þó ekki væri til annars en að undirstrika það að fjölskyldan utan um hestinn er allt landið, hvar sem við búum og hvað sem við gerum.  Ég heiti á hestamenn að fara yfir málið í rólegheitum, greina kosti og galla, þá muni menn sjá að það getur orðið jafn gaman í náttúru Víðidalsins, sem á Rangárvöllum, Skagafirði og Eyjarfirði.

Laugardælum 5.febrúar 2010,

Haraldur Þórarinsson.