Landsliðshestarnir í loftið

28. júlí 2009
Fréttir
Sigurður Sigurðarson og Hörður frá Eskiholti / Ljósm. MG
Seinni partinn í dag mættu landsliðsknaparnir með hesta sína út á Keflavíkurflugvöll til að koma þeim fyrir í gámunum sem fara um borð í flugvélina er flytur þá til Liege í Belgíu. Seinni partinn í dag mættu landsliðsknaparnir með hesta sína út á Keflavíkurflugvöll til að koma þeim fyrir í gámunum sem fara um borð í flugvélina er flytur þá til Liege í Belgíu.

Liðið er skipað 20 hrossum og koma 12 þeirra héðan frá Íslandi en hin 8 koma af meginlandinu. Flugvélin fer í loftið klukkan 19:30 og lendir í Liege um miðnætti að staðartíma. Þar munu hestarnir dvelja í nokkra klukkutíma þar sem þeir fá að borða og síðan er ferðinni heitið á mótsstað í Brunnadern í Sviss. Reiknað er með að þeir komi á áfangastað seinni partinn á morgun.

Í för með hestunum eru Susanne Braun dýralæknir liðsins og Erlingur Erlingsson, kynbótaknapi í liðinu. Úti í Liege bíða þeirra Guðmundur Björgvinsson, kynbótaknapi, Sigurður V Matthíasson, aðstoðarliðstjóri, og Eyvindur Hrannar Gunnarsson, aðstoðarmaður. Þau fimm munu fylgja hrossunum alla leið á mótstað og huga að þeim þar til hinir liðsmennirnir ásamt liðstjórum og aðstoðarmönnum koma til Brunnadern seinni partinn á föstudag.  Á laugardaginn hefjast svo æfingar á fullu.

Samverustundum knapanna með hestum sínum fer nú fækkandi og fer að ljúka hjá flestum þeirra því var það tilfinningarík stund hjá mörgum hverjum þegar þeir áttu sínar síðustu mínútur á Íslandi með hestunum á flugvellinum í dag. En að loknu heimsmeistaramóti fara hrossin til nýrra heimkynna víðsvegar um heiminn.