Landsliðið á Bessastöðum

05. nóvember 2019
Fréttir

Landsliðsnefnd LH hélt sannkallaðan uppskerudag fyrir HM-landsliðið í hestaíþróttum laugardaginn 2. nóvember. Í rauðabítið var haldið í Bláa lónið þar sem liðsmenn létu fara vel um sig drjúga stund. Bláa lónið er einn af stærstu styrktaraðilum landsliðsins og er því vel við hæfi að fagna góðu gengi ársins á þessum magnaða stað.

Að lokinni Bláa lónsferðinni bauð Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, landliðinu til móttöku á Bessastöðum til að heiðra liðið fyrir frábæra frammistöðu á heimsmeistaramótinu í Berlín. Það var hátíðleg stund og landsliðinu sýndur mikill heiður með því boði. Í spjalli sínu við hópinn lagði forsetinn mikla áherslu á mikilvægi hestamennsku í landkynningu og ferðaþjónustu, nokkuð sem erfitt væri að meta til fjár, og hversu góðir fulltrúar lands og þjóðar landsliðsmenn í hestaíþróttum væru, „kappsamt fólk sem leggur hart að sér og kemur fram með fullum sóma innanlands og utan“ eins og Guðni komst að orði.

 Dagurinn endaði svo á Uppskeruhátíð hestamanna á Hótel Sögu þar sem knapar ársins voru heiðraðir fyrir framúrskarandi afrek sín á árinu.