Kynning á gæðingafimi LH og prufumót

10. febrúar 2021
Fréttir
Hugmyndin að þessari keppnisgrein er að sýna vel þjálfaðan gæðing á listrænan hátt, þar sem öll þjálfunarstigin eru sýnd. Knapi fléttar saman gangtegundum og æfingum og sýnir í einni heild jafnvægi, þjálni, kraft og fimi hestsins.
 
Á síðasta landsþingi LH var samþykkt að notast verði við reglur um gæðingafimi unnar af starfshópi LH um gæðingafimi til reynslu fram að landsþingi 2022. Auk þess var mælst til þess að keppt verði í greininni á Íslandsmóti og þær mótaraðir sem hafa gæðingafimi sem keppnisgrein noti reglurnar á næsta keppnisári.
 
Mikilvægt var að ná rennsli á reglurnar, dómskjölin og framkvæmdina við mótshald gæðingafimi LH, auk þess að kynna leiðara í keppnisgreininni fyrir þeim dómurum sem gjaldgengir eru að dæma greinina á prufutímabilinu, áður en haldið er af stað á stærri mót. 
 
Segja má að mótið hafi gengið vel fyrir sig og viljum við þakka öllum sem hjálpuðu til við framkvæmdina og knöpum fyrir að gefa sér tíma og taka þátt í mótinu fyrir okkur. 
 
Keppt var á öllum stigum greinarinnar og funduðu dómarar bæði fyrir og eftir mótið og fóru vel yfir þau atriði sem þarf að samræma betur. Það að dæma gæðingafimi er mjög krefjandi og mikilvægt að dómarar fái góða menntun og þjálfun í því að dæma greinina.  Til þess að það verði þarf að halda sem flest mót í greininni á öllum stigum. Þess vegna hvetjum við forsvarsmenn hestamannafélaganna og mótaraðanna til þess að nota reglurnar og halda mót í gæðingafimi fyrir sína félagsmenn. Búið er að setja saman teymi sem mun halda utan um dómskjölin og aðstoða mótshaldara við að halda mót og bendum við þeim sem hafa hug á að halda mót í greininni að leita til skrifstofu LH sem veitir allar nánari upplýsingar um mótahaldið.
 
Einnig hvetjum við knapa sem hugnast að keppa í greininni og hinn almenna hestamann að kynna sér reglurnar og prófa að útfæra sýningar. 
Nú mun nefndin setjast yfir þau atriði sem upp komu á mótinu og lagfæra áður en regluskjalinu verður lokað fyrir þetta keppnistímabil. En hugmyndin er svo að setjast aftur yfir það eftir Íslandsmót og gera viðeigandi breytingar í ljósi reynslunnar á tímabilinu.