Kverkeitlabólga í Danmörku

28. apríl 2016

Kverkeitlabólga er alvarlegur hrossasjúkdómur sem telst landlægur í öllum okkar nágrannalöndum. Búgarðar með íslenska hesta í Danmörku hafa nú orðið fyrir barðinu á þessari sýkingu sem skýrir að miklu leyti umtalsverða fækkun skráðra hrossa  á kynbótasýningu í Herning nú í vikunni, samanborið við fyrri ár.  

Vakin er sérstök athygli atvinnumanna í hestamennsku sem starfa að einhverju leyti erlendis við sýningar, þjálfun, reiðkennslu, járningar o.fl. á hættunni á að þeir beri kverkeitlabólgu eða aðra smitsjúkdóma í íslenska hrossastofninn.

Æskilegast er að koma ekki heim með nokkurn þann fatnað eða skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis. Að öðrum kosti þarf að þvo hann og sótthreinsa fyrir komuna til landsins eða nýta sérstaka þjónustu þar að lútandi á Keflavíkurflugvelli. Með öllu er óheimilt að flytja til landsins notaða reiðhanska, reiðtygi eða annan búnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis.

Hættan er ekki einskorðuð við þá sem hafa umgengist veika hesta erlendis. Frískir smitberar geta leynst víða og því er möguleikinn á að hestamenn beri smitefnið til landsins alltaf fyrir hendi. 

Hrossaræktendur og fyrirtæki í hestatengdri ferðaþjónustu þurfa ennfremur að axla aukna ábyrgð á smitvörnum og senda öllum viðskiptavinum sínum bækling um smitvarnir við bókanir ferða eða heimsókna. Auk þess þarf að ganga úr skugga um að reglunum hafi verið fylgt þegar ferðamenn koma á staðinn. 

Rafrænn bæklingur um smitvarnir er aðgengilegur á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is undir flipanum hestamenn. Framangreindir aðilar eru hvattir til að hafa þennan bækling á áberandi stað á heimasíðum sínum en einnig er hægt að panta prentaðan bækling hjá Matvælastofnun.

Smitvarnir í hestamennsku eru á ábyrgð allra hestamanna.