Knapafundur ársins 12. febrúar

31. janúar

Keppnisknapar, mótshaldarar, dómarar og aðrir sem að mótahaldinu í hestamennskunni koma eru boðnir velkomnir á knapafund ársins á vegum mótasviðs Landssambands Hestamannafélaga.

Fundurinn verður haldinn í íþróttamiðstöð ÍSÍ á Engjavegi í Laugardal klukkan 19:00 sem og í streymi.

Farið verður yfir reglur mótahaldsins sem gilda árið 2024, breytingar sem hafa átt sér stað, reglur fyrir Landsmótsúrtökur og ýmislegt spennandi tengt mótahaldinu.

Á hverju ári berast mótasviði spurningar af ýmsum toga um reglur og annað þeim tengt. Reynslan sýnir að ítrekað berast spurningar af sama toga út ýmsum áttum og því þykir okkur tilvalið að halda stóran upplýsingafund fyrir alla sem tengjast mótahaldinu þar sem hægt er að fara yfir ýmis atriði áður en keppnistímabilið hefst á þessu mikilvæga og stóra mótaári.

Sviðsstjóri afreks- og mótamála stendur fyrir fundinum og verður með sérfræðinga sér til halds og trausts frá keppnisnefnd LH, dómara og mótshaldara.

Allir sem hafa hug á keppnisþátttöku á árinu eru hvattir til þess að mæta í Laugardalinn eða fylgjast með fundinum í streymi.

Dagskrá fundarins verður auglýst þegar nær dregur.

Fundarsalur ÍSÍ gefur möguleika á takmörkuðu plássi og því þarf að skrá sig á fundinn hér: Skráning á knapafund

 

Sjáumst 12. febrúar í mótahug!

Mótasvið LH