Jór! Hestar í íslenskri myndlist

26. apríl 2011
Fréttir
Jór! Hestar í íslenskri myndlist. Myndlistasýning sem fer fram á Kjarvalsstöðum frá 7. maí - 21. ágúst 2011. Jór! Hestar í íslenskri myndlist. Myndlistasýning sem fer fram á Kjarvalsstöðum frá 7. maí - 21. ágúst 2011.

Hesturinn hefur verið viðfangsefni íslenskra myndlistamanna frá upphafi, annað hvort sem aðalviðfangsefni eða í aukahlutverki í landlagsmálverkum og mannamyndum. Á sýningunni Jór! verða sýnd u.þ.b. 48 málverk og 10 skúlptúrar sem fjalla með ýmsum hætti um það hvernig íslenskir listamenn hafa túlkað tengsl manns og hests í rúma öld, eða frá 1900 til 2010. Á sýningunni verða verk eftir alla helstu listamenn Íslendinga á þessu tímabili. Sýningunni verður skipt í þrjú þemu: Þarfasti þjónninn; um hversdagsleg samskipti manns og hests, Holdgaður stormur; um hestinn sem náttúru og Hestar með vængi; hinn goðsagnalegi hestur.
Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

Dagskrá:
Laugardag 7. maí 
Kjarvalsstaðir – Jór! Hestar í íslenskri myndlist
Opnun - Úrvalshópur ungmenna á vegum Landssambands Hestamannafélaga mætir við formlega opnun.

Sunnudag 8. maí  kl. 15
Kjarvalsstaðir – Jór! Hestar í íslenskri myndlist
Sýningarstjórinn Aðalsteinn Ingólfsson ásamt Gísla B. Björnssyni hönnuði og höfundi bókarinnar Íslenski Hesturinn sem er yfirgripsmesta verk sem út hefur komið um þetta einstaka hrossakyn, leiða gesti um sýninguna.

Sunnudag 26. júní kl. 15
Kjarvalsstaðir – Jór! og Litbrigði hestsins
Fyrirlestur og leiðsögn
Leiðsögumaðurinn og hestakonan Bergljót Rist flytur erindi um litatilbrigði íslenska hestsins. Í kjölfarið verður gengið í gegnum sýninguna. Skipulagt í samvinnu við Landssamband Hestamannafélaga.

Sunnudag 7. ágúst  kl. 14
Kjarvalsstaðir – Jór! og Litbrigði hestsins
Fjölskyldudagskrá skipulögð í samvinnu við Landsamband Hestamanna.

Laugardag 20. ágúst
Menningarnótt í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni
Fjölbreytt dagskrá í öllum húsum.

Leiðsögn á ensku á Kjarvalsstöðum alla fimmtudaga kl. 11, í júní, júlí og ágúst.