Jón Albert hlaut heiðursverðlaun LH

20. desember 2017
Fréttir

Jón Albert Sigurbjörnsson hóf afskipti sín að félagsmálum hestamanna í kringum 1987 með þátttöku í unglingastarfi Fáks.  1990 er hann var kosinn formaður íþróttadeildar hestamannafélagsins Fáks.  Þeirri stöðu gegndi hann til 1994. Við gjaldþrot Reiðhallarinnar í Víðidal var Jón fenginn sem framkvæmdastjóri og rak hana á árunum 1991 til 1993.  Eins og allt sem Jón tekur að sér þá gerir hann það með „hjartanu“ og ekki leið á löngu uns reksturinn fór að liggja réttu megin við núllið enda höllin rekin sem hans eigin með öflugu starfi fyrir okkur hestamenn með alskonar námskeiðum og sýningarhaldi.

Jón var í stjórn HÍS (Hestaíþróttasamband Íslands) frá 1991 sem gjaldkeri og formaður frá 1993 til 1997 þegar HÍS og LH voru sameinuð.  Jón Albert var ákafur talsmaður þess að sameina HÍS og LH og vann ötullega að því máli á vettvangi ÍSÍ, HSÍ og LH.  Fór hann fremstur í flokki, vel studdur af félögum sínum innan ÍSÍ, HSÍ og LH.

Á stofnfundi nýrra samtaka 1997 er Jón kosinn varaformaður LH.  1998 er hann svo kosinn formaður LH og gengdi því starf til 2006.  Á árum sínum hjá LH vann hann ötullega að því að efla hestaíþróttir á öllum sviðum innan Íslandshestamennskunnar.  Þá beitti hann sér innan ÍSÍ við að kynna og efla skilning á hestaíþróttinni innan vébanda ÍSÍ svo eftir var tekið.  Sem dæmi um það mætti Ólafur heitinn Rafnsson þáverandi forseti ÍSÍ á ársþingið 2006 þegar Jón lét af formennsku í LH og heiðraði hann með starfsmerki ÍSÍ um leið og hann þakkaði honum skemmtilegt og árangursríkt samstarf.

Jón Albert var kosinn varaformaður FEIF 2005 og gegndi því embætti til 2012.  Öll árin sem hann starfaði innan FEIF, bæði sem formaður LH og svo sem varaformaður FEIF, beitti hann sér fyrir því að Íslendingar væru leiðandi við að mynda samstöðu innan FEIF og aðildarlanda þess um þau verkefni sem unnin eru á vegum þeirra.  Þannig taldi hann að ná mætti mun meiri árangri við að útbreiða Íslandshestamennskuna bæði hér heima og erlendis, og eins og við vitum er íslenski hesturinn talinn okkar fremsti sendiherra.  Að loknu starfi sínu innan FEIF var hann sæmdur heiðursmerki samtakanna.

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur störf af þeim fjölmörgu sem Jón hefur innt af hendi fyrir okkur hestamenn.  Það sem einkennir öll störf Jóns Alberts er elja hans og ósérhlífni þar sem hagsmunir íslenska hestsins eru hafðir að leiðarljósi eins og sést best á því að hann hefur alltaf hlotið heiðursviðurkenningar þeirra samtaka sem hann hefur unnið fyrir eins og þessi upptalning ber merki:  Gullmerki Hestamannafélagsins Fáks,  Gullmerki LH, Gullmerki ÍSÍ og Heiðursmerki FEIF. 

En ekki má gleyma henni Láru Guðmundsdótir konu Jóns og fjölskyldu hans sem stutt hefur hann á allan hátt í störfum hans fyrir okkur hestamenn.  Lára hefur ósjaldan opnað heimili þeirra með miklum myndarskap þegar á þurfti að halda.  

Það eru forréttindi hestamanna að hafa fengið Jón Albert til að starfa að félagsmálum hreyfingarinnar öll þessi ár og gæfa þeirra sem fengu að starfa með honum.

Jón Albert Sigurbjörnsson hlýtur verðskuldað, heiðursverðlaun LH 2017.