Jóhann Skúlason í 12. sæti í kjöri um íþróttamann ársins 2019

Jóhann R. Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum
Jóhann R. Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum

Jóhann Rúnar Skúlason, knapi ársins, varð í tólfta sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um íþróttamann ársins 2019. Heildarúrslit í kjörinu má sjá hér.

Jóhann vann það einstaka afrek á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín 2019 að vinna þrefaldan heimsmeistaratitil á hestinum Finnboga frá Minni-Reykjum. Jóhann varð heimsmeistari í tölti T1, fjórgangi V1 og samanlögðum fjórgangsgreinum. Þá hlaut Jóhann reiðmennskuverðlaun FEIF sem afhent er þeim sem þykir sýna besta reiðmennsku á HM. Þar með eru heimsmeistaratitlar Jóhanns orðnir 13 talsins frá árinu 1999.

Þá á Jóhann hæstu einkunn ársins í tölti T1 í heiminum og hann sigraði í tölti á öllum mótum sem hann tók þátt í á árinu, í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi.

Jóhann hóf keppnisferil sinn í Skagafirði á unglingsaldri. Hann hefur verið meðal fremstu afreksknapa Íslands í rúm 20 ár og hefur stundað atvinnumennsku í hestaíþróttum í Danmörku síðan 1992. Jóhann var fyrst valinn í landslið Íslands í hestaíþróttum árið 1997 og hefur keppt á öllum heimsmeistaramótum síðan þá að heimsmeistaramótinu árið 2001 undanskildu. Hann hefur riðið úrslit í tölti á öllum Heimsmeistaramótum sem hann hefur tekið þátt í síðan 1999. Jóhann hefur alls unnið þrettán heimsmeistaratitla, sjö í tölti, fimm í samanlögðum fjórgangsgreinum og einn í fjórgangi.  Enginn einn knapi hefur unnið fleiri heimsmeistaratitla í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum.