Ístölt Austurland 2013

05. febrúar 2013
Fréttir
Aðalatriðið er ísinn - Nú styttist óðum í hið árlega Ístölt Austurland sem Freyfaxi stendur fyrir á Fljótsdalshéraði, en það verður haldið 23. febrúar n.k. Mótið fer fram eins og undanfarin ár á Móavatni við Tjarnarland.

Aðalatriðið er ísinn
Nú styttist óðum í hið árlega Ístölt Austurland sem Freyfaxi stendur fyrir á Fljótsdalshéraði, en það verður haldið 23. febrúar n.k.  Mótið fer fram eins og undanfarin ár á Móavatni við Tjarnarland. Þar er góð aðstaða fyrir hendi, m.a. stórt hesthús og afbragðs aðstaða fyrir knapa og áhorfendur.

Það sem er aðalatriðið við ístölt er að sjálfsögðu að hafa nægan ís. Nú eins og stundum áður er nægan ís að finna eystra, og íshellan svo þykk að dugar vart meters langur tommustokkur til mælinga og er haft eftir Einari Kristjáni á Tjarnarlandi að Móavatnið sé ekki langt frá því að vera botnfreðið.

Freyfaxi vill hvetja alla knapa til að skrá sig á þetta skemmtilega mót, hvort sem um atvinnu- eða áhugamenn er að ræða. Þeir sem koma lengra að eru hvattir til að setja sig í samband við formann Freyfaxa (Einar Ben)  sem getur gefið greinargóðar upplýsingar, vísað á hesthúspláss og hjálpað til með að finna gistingu. Skráningarfrestur rennur út miðvikudagskvöldið 20. Febrúar.

Keppt verður í A-flokki, B-flokki, tölti opnum flokki, tölti áhugamanna og tölt 16 ára og yngri. Sem fyrr er keppt um glæsilega verðlaunagripi. Ormsbikarinn eftirsótti er veittur fyrir sigur í tölti, Frostrósin fyrir sigur í B-flokki og Skeiðdrekinn fyrir fyrsta sæti í A-flokki. Sigurvegarar síðasta árs hafa staðfest komu sína til titilvarnar, Skeiðdrekann sigraði í fyrra Þorbjörn Hreinn Matthíasson með eftirminnilegum hætti. Hans Friðrik Kjerúlf varðveitir hins vegar Ormsbikarinn og Frostrósina eftir að hafa sigrað B-flokk og Tölt á seinasta ári.

Allar frekari upplýsingar á www.freyfaxi.123.is

Mynd:

Hans Kjerúlf og Stórval frá Lundi á Ístölt Austurland 2012. Ljósmynd: Sonja Krebs