Tilnefning menntanefndar LH til reiðkennara FEIF 2020

22. desember 2020
Fréttir

Ísólfur Líndal Þórisson tilnefndur til FEIF frá Íslandi sem “Reiðkennari ársins 2020”(Trainer of the year 2020)

Á hverju ári tilnefna aðildalönd FEIF reiðkennara til „Best FEIF instructor/trainer of the Year“. Á þessu ári var óskað eftir einstaklingi sem hefði gert eitthvað sérstakt í heimsfaraldrinum, t.d. gefið út rafrænt efni.  Margir muna eflaust eftir skemmtilegu efni Ísólfs um fortamningar sem var sendt út í vor á Eiðfaxa á erfiðu tímabili vegna covid-19 veirufaraldursins

Ísólfur Líndal er hestamönnum vel kunnugur enda átt afar farsælan feril á keppnisbrautinni sem og kynbótabrautinni, en ekki síst sem virtur og vinsæll reiðkennari.

Ísó, eins og hann er oftast kallaður, er einn af þeim sem nýtti vel hinn óvænta „frítíma“ vegna veirufaraldursins á þessu ári og fór af stað með kennslu á netinu. Þau fjölskyldan opnuðu nýja kennslusíðu núna í haust, www.isoonline.is, þar sem má finna alls kyns kennslumyndbönd. Fólk getur einnig sent inn fyrirspurnir sem hefur verið mjög vinsælt, og segir Ísó hugmyndirnar að nýjum kennslumyndböndum sjálfsagt í hundraðatali, en planið er að bæta sífellt inn nýju efni.

Ísólfur er menntaður reiðkennari frá Hólaskóla og hlaut reiðkennsluverðlaunin þar 2005. Hann vann sem kennari á Hólum í nokkur ár eftir að útskrifast sjálfur frá skólanum en hætti svo til að geta einbeitt sér meira að eigin tamningastöð og sívaxandi eftirspurn eftir námskeiðum erlendis. Núna tíu árum síðar er Ísó aftur kominn til starfa sem hlutakennari á Hólum, og er hæstánægður með það. Sífelld ferðalög sem fylgja námskeiðahaldi erlendis geta vissulega orðið þreytandi og Ísó hefur oft hugsað um að reyna að bjóða upp á kennslu á netinu, ekki síst til að geta náð til fólks um allan heim sem hefur litla möguleika á að sækja námskeið á hefðbundinn hátt. Covid-19 veirufaraldurinn stöðvaði utanlandsferðalög um tíma og Ísó og Vigdís, konan hans, sáu að nú væri lag, og hófu vinnu við nýja kennslusíðu með hjálp forritara og fleira fagfólks.  

Í fyrstu bylgju faraldursins þegar allt var lokað, hóf Ísó að bjóða upp á opin kennslumyndbönd á Eiðfaxavefnum og Fésbókinni. Hestamenn tóku framlaginu fagnandi enda upplífgandi og frískandi þegar lítið var í boði af venjulegum viðburðum eins og námskeiðum og mótum. Í upphafi var allt efnið frítt til að kanna viðbrögðin sem voru virkilega góð og sýndu að það er greinilega áhugi á slíku efni. Þegar heimasíðan fór svo í loftið í haust, voru hluti myndbandanna enn opin og gjaldfrjáls en önnur er hægt að “leigja”. Ísó segir að á næstunni verði einnig boðið upp á mánaðaráskrift sem hann telur verði líklega vinsælasta útgáfan.

Sem reiðmaður og reiðkennari er Ísó þekktur fyrir fagmennsku og skýra kennslunálgun. Hann kennir knöpum á öllum stigum reiðmennskunnar og leggur mikla áherslu á að allir sem vilja læra eiga góða kennslu skilda.

Eins og Ísó sjálfur segir svo vel “við erum öll á einhverri vegferð og mín nálgun er sú að það skiptir engu máli hvar þú ert á þínu ferli í þinni reiðmennsku, allir staðir eru jafn mikilvægir og verðskulda jafn mikla athygli frá reiðkennaranum þínum.”

Menntanefnd LH er sammála um að Ísó er dæmi um hæfileikaríkan reiðkennara sem gerði sem mest úr þessu einkennilega ári og náði að gera sína kennslu aðgengilega hestafólki um allan heim. Ísólfur Líndal Þórisson er því tilnefndur til vals FEIF landanna um “Reiðkennara ársins 2020”.