Íslands- og heimsmeistarar á svellið!

26. mars 2012
Fréttir
Eyjólfur Þorsteinsson og Klerkur frá Bjarnanesi 2011. Mynd: Dalli.is
Nú líður senn að veislu vetrarins hvað töltkeppnir varðar en ÍSTÖLT þeirra allra sterkustu verður haldið á laugardagskvöldið kemur í Skautahöllinni í Laugardal og hefst kl. 20:00. Miðasalan hefst í verslunum Líflands, Ástundar, Top Reiter, Hesta og manna og Baldvins og Þorvaldar á morgun.  Miðaverð er kr. 3.500. Nú líður senn að veislu vetrarins hvað töltkeppnir varðar en ÍSTÖLT þeirra allra sterkustu verður haldið á laugardagskvöldið kemur í Skautahöllinni í Laugardal og hefst kl. 20:00. Miðasalan hefst í verslunum Líflands, Ástundar, Top Reiter, Hesta og manna og Baldvins og Þorvaldar á morgun.  Miðaverð er kr. 3.500.


Að venju eru á ráslistanum þekktir knapar og hross og í ár verður engin breyting þar á. Næstu daga verða kynntir til sögunnar þeir knapar og hestar sem mæta á ísinn, auk þeirra mögnuðu stóðhesta sem koma fram í stóðhestakynningunni.

En áfram með smjörið, knapar og hestar eru ekki kynntir í neinni sérstakri röð.

Eyjólfur Þorsteinsson mætir með Háfeta frá Úlfsstöðum. Eyjólfur er knapi í fremstu röð og varð heimsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum á HM í Austurríki síðasta sumar. Eyjólfur og Háfeti sigruðu B-úrslitin í töltkeppni meistaradeildarinnar á dögum og fóru síðan alla leið í 3. sætið.

Halldór Guðjónsson er ekki alveg ókunnur töltkeppnum á ís. Hann hefur sigrað Ístölt þeirra allra sterkustu síðustu þrjú árin á hinum magnaða Nátthrafni frá Dallandi! Halldór mætir nú til leiks með Bláskjá frá Kjarri.

Sylvíu Sigurbjörnsdóttur þarf varla að kynna fyrir hestamönnum, bæði er hún með magnað ættartré á bak við sig en ennfremur hefur hún sannað sig sem keppnismanneskja í fremstu röð. Sylvía teflir fram tölthryssunni Furu frá Enni en þær stöllur lentu í 2. sæti á Svellköldum konum á dögunum.

Elvar Einarsson var í landsliði Íslands á HM2011 og varð Íslandsmeistari í 250m skeiði 2011. Hann var jafnframt valinn íþróttamaður Skagafjarðar í fyrra. Elvar kemur með stóðhestinn litfagra Hlekk frá Lækjamóti en þeir létu til sín taka á Svínavatni fyrr í mánuðinum.

Magnús Bragi Magnússon á Íbíshóli var maður mótsins á Mývatn Open sem haldið var 10. mars s.l. Hann sigraði töltið á Óskasteini frá Íbíshóli og stóðhestakeppnina á Vafa frá Ysta-Mói. Magnús Bragi fyllir á tankinn í Varmahlíð og skottast suður með Óskastein á svellið.