Innlegg frá Félagi tamningamanna

Félag tamningamanna
Félag tamningamanna

Kæru hestamenn,  

Félag Tamningamanna  vill koma með innlegg í Landsmótsumræðuna byggt á markmiðum félagsins :  Velferð hestsins skal ávallt hafa í fyrirrúmi. Félag tamningamanna hefur af því áhyggjur að velferð hrossa sé fyrir borð borin í umræðunni um framtíðarsýn landsmóta. 

Knapar og hestar þurfa ró, andlegt og líkamlegt jafnvægi svo þeir geti náð sem farsælustum árangri í sínum keppnisgreinum, og fari heim með góðar minningar.

Fyrirmyndar aðstaða er forsenda þess að hestar og knapar geti verið í andlegu og líkamlegu jafnvægi, sem nauðsynlegt er til afreka líkt og í öðrum íþróttagreinum. Því er mikilvægt að kostnaðar- og áhættusamir kerruflutningar og bið á kerru séu í lágmarki eftir að mót hefst, fóðrun og umhirða fari fram af sömu reglusemi og hestar þekkja úr þjálfuninni og að knapar og umsjónarmenn fái nægan svefn, hvíld og næringu.  Allt of algengt er að knapar séu útkeyrðir, fái of lítinn svefn og hestar standi langtímum saman á kerrum fyrir og eftir keppni. Er þetta mikilvægur þáttur sem ekki má gleymast í umræðunni.

Félag Tamningamanna tekur ekki afstöðu til vals á Landsmótsstað, en ítrekar að velferð hestsins sé höfð að leiðarljósi við þá ákvörðun.

Með kveðju um bjarta framtíð Landsmóta og hestamennskunnar allrar.

                  Stjórn félags tamningamanna