Í hvaða hestamannafélagi ertu? — Rétt skráning á ábyrgð knapa og eigenda

05. mars 2009
Fréttir
Keppendur, eigendur hesta og knapar þeirra, eru ábyrgir fyrir því að þeir séu rétt skráðir í félagatal LH og þar með Sportfeng. Allnokkrir hestamenn eru skráðir í tvö eða fleiri hestamannafélög. Þeir verða sjálfir að láta vita fyrir hvaða félag þeir ætla að keppa áður en keppnistímabilið hefst. Að öðrum kosti er undir hælinn lagt hvaða félag verður fyrir valinu í mótsskrá. Keppendur, eigendur hesta og knapar þeirra, eru ábyrgir fyrir því að þeir séu rétt skráðir í félagatal LH og þar með Sportfeng. Allnokkrir hestamenn eru skráðir í tvö eða fleiri hestamannafélög. Þeir verða sjálfir að láta vita fyrir hvaða félag þeir ætla að keppa áður en keppnistímabilið hefst. Að öðrum kosti er undir hælinn lagt hvaða félag verður fyrir valinu í mótsskrá.

Hestur má aðeins keppa fyrir eitt félag á hverju keppnistímabili, og knapi aðeins fyrir eitt félag í íþróttakeppni. Taki viðkomandi einstaklingur ekki sérstaklega fram við skráningu hvaða félag er hans keppnisfélag velur Sporfengur félag (af handahófi) þegar knapi eða hestur er skráður til keppni. Ef það er hins vegar ekki það félag sem viðkomandi ætlar að keppa fyrir á keppnistímabilinu getur það komið sér mjög bagalega og jafnvel eyðilagt keppnistímabilið fyrir knapa eða hesti.

Oddur Hafsteinsson, formaður tölvunefndar LH, segir að hestafólki sé heimilt að vera í tveimur eða fleiri hestamannafélögum. Sportfengur geti að sjálfssögðu ekki valið rétt keppnisfélag. Það verði viðkomandi einstaklingar að taka sérstaklega fram við skráningu.

„Knapar og hestar hafa hlotið keppnisbann vegna misskráningar. Menn taka oftar en ekki þátt í onum mótum nærliggjandi félaga og fylgjast ekki nægilega með hvernig þeir eru skráðir í mótsskrá. Síðan taka þeir þátt í „stóra“ mótinu hjá sínu aðalfélagi og fá þá hugsanlega á sig kæru. Keppnisskrá frá „litlu vetrarmóti“ hefur ráðið úrslitum sem sönnunargagn í slíku máli,“ segir Oddur.

„Hestamannafélögin skrá alla sína félagsmenn í Felix og sendir þá skrá inn til LH. Þær eru síðan lesnar inn í sportfeng. Felix er eina löglega félagatalið sem LH tekur gilt. Það er á ábyrgð hvers og eins að fylgjast með hvort hann er löglega skráður í hestamannafélag, og hvort lögleg aðildarskipti hafi farið fram — hafi viðkomandi skipt um félag. Í lögum og reglum LH er ítarlega farið yfir það hvernig félagaskipti skuli fara fram,“ segir Oddur Hafsteinsson.

Úr lögum og reglum LH

Félagaskipti skulu fara fram á eftirfarandi hátt:

Félagaskipti skulu fara fram á þar til gerðu eyðublaði, sem LH gefur út, og kallast félagaskiptaeyðublað. Eyðublaðið skal undirritað af viðkomandi keppanda, félagi því sem gengið er úr og félagi því sem gengið er í. LH staðfestir félagaskiptin og öðlast viðkomandi keppandi þar með keppnisrétt með hinu nýja félagi í fyllingu tímans. LH er ekki heimilt að staðfesta félagaskipti fyrr en undirskrift keppanda og viðkomandi félaga liggur fyrir.

Heimild til undirritunar félagaskipta:

Heimild til að undirrita félagaskiptaeyðublað hafa:

a) Formenn félaga eða staðgenglar þeirra.

b) Formaður LH eða staðgengill hans.

c) Viðkomandi keppandi, eða aðili með skriflegt umboð hans.

Keppandi og keppni:

Keppandi getur aðeins tekið þátt í íþróttamóti/gæðingakeppni í nafni eins félags á sama keppnistímabili. Sjá þó greinar 3.3.4. og 3.4.

Heimild til félagaskipta:

Heimilt er að skipta um félag á tímabilinu 1. janúar til febrúarloka ár hvert. Hafi keppandi ekki tekið þátt í móti s.l. tvö keppnistímabil, gilda þessi tímamörk ekki. Keppandi sem flytur lögheimili og dvalarstað sinn milli héraða innan keppnistímabilsins og gengur í félag á nýjum dvalarstað, hefur rétt á að keppa fyrir hið nýja félag sitt, þótt hann hafi áður á sama keppnistímabili keppt fyrir annað félag í sínum fyrri heimkynnum. Félagaskipti skulu fara eftir reglum um félagaskipti.

Heimilt er að draga félagaskipti til baka, hafi keppandi ekki tekið þátt í íþróttamóti með sínu nýja félagi á keppnistímabilinu, og öðlast hann þá keppnisheimild með sínu gamla félagi strax og hann hefur sannanlega lagt fram skriflega beiðni þar að lútandi til LH.

* Óski keppandi félagaskipta skal hann greiða LH gjald, sem nemur kr. 2.500,- og greiðist við samþykki LH.  LH er óheimilt að staðfesta félagaskipti nema gjald þetta sé greitt.
* Félagi er óheimilt að synja keppanda um félagaskipti, sé hann skuldlaus við félagið.
* LH skal tilkynna öllum félögum um félagaskipti keppenda eigi síðar en 7 dögum eftir að LH hefur staðfest félagaskiptin.