Hvernig veljum við saman mann og hest?

05. janúar

Síðastliðin ár hafa einkennst af vaxandi umræðu um velferð hesta og hugtakið Social License to Operate (SLO) hefur verið áberandi. Það er mikilvægt að hafa í huga áhrif þessarar umræðu á hestamennsku hér á landi og brúkun á íslenskum hestum almennt.

FEIF hefur nú sent frá sér könnun þar sem reynt er að varpa ljósi á þá þætti sem hestafólki á mismunandi stigum hestamennskunnar þykir skipta hvað mestu máli þegar kemur að því að velja saman hest og knapa. Könnunin er unnin í samvinnu við Mike Weishaupt sem er fyrsti fyrirlesari rafrænnar menntaráðstefnu LH og HOI.

Könnunin er nafnlaus, samanstendur af 14 spurningum og er opin öllum hestamönnum 18 ára og eldri. Við hvetjum alla hestamenn að svara þessari könnun sem er á ensku: https://de.surveymonkey.com/r/HGVQC2R og á þýsku: https://de.surveymonkey.com/r/QVKSTB9

Mike Weishaupt er hluti af SMG hópnum sem stendur fyrir: The Suitably Mounted Group og samanstendur af fagfólki sem fjallar um áhrif knapastærðar á velferð hesta. Í hópnum eru meðal annars skipuleggjendur sýninga, vísindamenn, sérfræðingar í dýralækningum og velferð hesta sem og geðheilbrigðis manna.

Meðlimir munu safna saman og fara yfir núverandi rannsóknir og hvetja þá sem eru opnir fyrir samstarfi og samtali um þessi mál að setja sig í samaband. Hópurinn vinnur nú að því að safna nauðsynlegum gögnum þar með talið er þessi könnun svo hægt sé að ræða og taka á þessu mikilvæga máli með staðreyndirnar að vopni.