Hrossaræktendur á Suðurlandi álykta um kynbótasýningar

04. apríl 2009
Fréttir
Galsi frá Sauðárkróki, knapi Baldvin Ari Guðlaugsson.
Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldinn þann 26. mars í Þingborg. Helstu fréttir af fundinum eru þær að Halldór Guðjónsson var kosin í aðalstjórn og í varastjórn voru kosin María Þórarinsdóttir og Birgir Leó Ólafsson.  Núverandi stjórn er því þannig skipuð: Sveinn Steinarsson formaður, Bertha Kvaran, Bjarni Sigurðsson, Ólafur Einarsson og Halldór Guðjónsson. Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldinn þann 26. mars í Þingborg. Helstu fréttir af fundinum eru þær að Halldór Guðjónsson var kosin í aðalstjórn og í varastjórn voru kosin María Þórarinsdóttir og Birgir Leó Ólafsson.  Núverandi stjórn er því þannig skipuð: Sveinn Steinarsson formaður, Bertha Kvaran, Bjarni Sigurðsson, Ólafur Einarsson og Halldór Guðjónsson.

Varamenn eru Bjarni Þorkelsson, María Þórarinsdóttir og Birgir Leó Ólafsson.  Stjórnin hefur enn ekki skipt með sér verkum.  Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma var með mjög gott erindi á fundinum varðandi smitsjúkdóm og varnir gegn þeim og verður birtur úrdráttur úr erindi við fyrsta tækifæri. Stjórnin lagði fyrir fundinn fjórar tillögur, til fagráðs í hrossarækt, varðandi sýningarfyrirkomulag og vægisbreytingar, þær voru allar samþykktar. Eins og hestamenn vita hafa þau mál verið mikið í umræðunni að undanförnu og fannst stjórninni að samtökin þyrftu að taka afstöðu til þeirra mála. Tillögurnar fara hér á eftir:

Tillaga 1 til fagráðs um útfærslu kynbótasýninga
„Aðalfundur Hrossaræktarsambands Suðurlands 26. mars 2009 leggur til varðandi fyrirhugaðar breytingar á sýningarfyrirkomulagi kynbótahrossa að áfram verði notast við beina braut sem verður gerð eins hestvæn og hún getur orðið. Lækkaður verður stuðningur meðfram brautinni og hann verði í líkingu við það sem gerist almennt við keppnisbrautir.Hvað breidd brautarinnar varðar skal hún höfð breiðari en tíðkast hefur uppá síðkastið  t.d. á síðastliðnu Landsmóti, til endanna verði  vel afmarkaðir staðir þar sem snúa skal við. Þetta ætti að gera það að verkum að sú vegalengd sem riðin er verður mun styttri og stuðlar að mun hestvænni sýningu með styttri reið. Það að menn geti af frjálsum vilja sýnt hluta af sinni sýningu inn á hringvelli getur verið skemmtileg viðbót, sem þó ætti ekki að gera að kvöð.“

Tillaga 2 til fagráðs um fyrirhugaðar breytingar á vægi einstakra hæfileikaeinkunna kynbótahrossa.
„Aðalfundur Hrossræktarsamtaka Suðurlands 26. mars 2009 leggur til við fagráð að í þeim vægisbreytingum sem kynntar hafa verið, verði vægi á feti ekki hærra en 3% en það er nú 1.5%. Við þá hækkun ætti fetið að fá næga athygli og ástundun og þar með gefa  betri upplýsingar um þá gangtegund hestsins.Vægi skeiðs sem verið hefur 9% verði 10%. Tryggir það hag alhliðahestsins að nokkru leiti gagnvart þeim breytingum sem kynntar hafa verið.Vægi vilja og geðslagseinkunnar sem verið hefur 12.5% lækki og verði 10%. „

Tillaga 3, varðandi þröskulda á hægu tölti:
Ef einungis er sýnt hægt tölt er hámarkseinkunn 8,5 (óbreytt)               sama og fagráð
Ef ekki er sýnt  hægt tölt er hámarkseinkunn 7,5 (er nú 8,0)                  sama og fagráð
Til að ná 8,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 7,5                          sama og fagráð
Til að ná 8,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,0                          sama og fagráð
Til að ná 9,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5                          sama og fagráð
Til að ná 9,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5                       fagráð 9,0 fyrir hægt tölt
Til að fá 10,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 9,0                         sama og fagráð
   

Tillaga 4, varðandi þröskulda á hægu stökki:
Ef einungis er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 fyrir stökk (óbreytt)   
Ef ekki er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 (er nú 8.5)                   sama og fagráð.
Til að ná 8,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 7,5.              fagráð 8,0 fyrir hægt stökk
Til að ná 9,0 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 8,0.              fagráð 8,5 fyrir hægt stökk
Til að ná 9,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst  8,5.             fagráð 9,0 fyrir hægt stökk
Til að ná 10,0 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 9,0              sama og fagráð

Nánar er hægt að kynna sér tillögurnar og umræður um þær í fundargerð aðalfundar  á slóðinni www.bssl.is undir Hrossaræktarsamtök Suðurlands, fundargerðir.


Tekið saman af Höllu Eygló Sveinsdóttur.