Hringvallarmálið er heitt

12. mars 2009
Fréttir
Kristinn Guðnason stendur fast við hringvallar hugmyndina.
Fjölmenni var á fundi Guðlaugs Antonssonar, hrossaræktarráðunauts, og Kristins Guðnasonar, formanns fagráðs og Félags hrossabænda, í Þingborg í gærkvöldi. Heitasta umræðuefnið voru hugmyndir um að færa dóma á kynbótahrossum inn á gæðingavöll. Gunnar Arnarson, hrossaræktandi á Auðsholtshjáleigu, varar við þeim breytingum og segist sjá í þeim margar hættur. Fjölmenni var á fundi Guðlaugs Antonssonar, hrossaræktarráðunauts, og Kristins Guðnasonar, formanns fagráðs og Félags hrossabænda, í Þingborg í gærkvöldi. Heitasta umræðuefnið voru hugmyndir um að færa dóma á kynbótahrossum inn á gæðingavöll. Gunnar Arnarson, hrossaræktandi á Auðsholtshjáleigu, varar við þeim breytingum og segist sjá í þeim margar hættur.

Guðlaugur og Kristinn er þessa dagana á árlegri hringferð sinni um landið þar sem þeir kynna það helsta sem er á döfinni í fagráði hrossaræktarinnar og Félagi hrossabænda. Flest af því sem fram kom í erindum þeirra hefur komið fram í fréttum áður í haust og vetur. Eru það meðal annars hugmyndir um breytingar á vægi eiginleika í dómskala kynbótahrossa og áðurnefndar hugmyndir um breytingar á sýningaumhverfi.

Kristinn greindi einnig frá breytingum sem hafa átt sér stað í opinberum styrktarsjóðum til handa hestamennskunni, sem nú hafa verið sameinaðir í einn sjóð, svokallaðan þróunarsjóð. Allir sem hyggja á verkefni í hestamennsku geta sótt um. Umsóknarfrestur fyrir næsta tímabil er til 20. mars. Einnig hnykkti Kristinn á að svo virðist sem sjáist til lands í rannsóknum á sumarexemi. Vonir standi til að hægt verði að bólusetja hross fyrir sumarexemi, eða byggja upp ónæmi í þeim með öðrum hætti, innan fárra ára.

Fundurinn í Þingborg var einn sá líflegasti sem haldinn hefur verið lengi. Sendingar flugu á milli Gunnars Arnarsonar og Kristins Guðnasonar, bæði dulkóðaðar og ódulkóðaðar, og grillti á stundum í gamla og góða tíma þar sem mál voru rædd tæpitungulaust. Gunnar sagði að breið andstaða væri við hugmyndum Kristins og Guðlaugs um að færa sýningar inn á hringvöll. Hann sagðist sjá margar hættur í þeim breytingum, svo og breytingum á vægi. Færri hross ættu erindi sem erfiði á sýningar, einkunnir myndu lækka og sýndum hrossum fækka.

Kristinn og Guðlaugur svöruðu því til að aðeins einn annar fundargestur á ferð þeirra um landið hefði verið sammála Gunnari. Stöðnun væri það versta sem menn gætu lent í. Hugmyndir væru til að ræða þær, prófa, og síðan að meta hvort þær væru til þess fallnar að þoka málum áfram. Ítrekuðu þeir báðir að hugmyndirnar væru ekki síst sprottnar af viðleitni til að auðvelda mat á verðmætasta eiginleika hrossanna, vilja og geðslagi. Og einnig hvort þær væru leið til að minnka spennureið og gera sýningaumhverfið sanngjarnara út frá forsendum hestsins.