Heimildamynd um íslenska hestinn á FEI TV

FEI TV Myndband 

„Víkingahestar“ gera strandhögg í hestaheiminum

  • https://www.youtube.com/watch?time_continue=5&v=ieOl2BKOtBw
    • Fyrsti hluti heimildamyndar í tveimur hlutum um íslenska hestinn er kominn í sýningar hjá stærsta hestafjölmiðli í heimi.
    • Myndin eru hluti þáttaraðarinnar FEI Equestrian World, sem nær til nærri 240 milljóna hestaáhugamanna um allan heim.
    • Þetta er mesta kynning um íslenska hestinn fyrr og síðar.

Þessi heimildamynd er í tveimur hlutum og fjallar um íslenska hestinn fyrir þáttaröðina FEI Equestrian World. Fyrsti hluti myndarinnar var birtur á vefsíðunni fei.org 20. Febrúar sl. Þátturinn nær til rúmlega 238 milljóna manna um allan heim.

Fyrri hluti myndarinnar ber titilinn „Litlir víkingar: Hestar Íslands“, þar birtist viðtal við Jelenu Ohm, verkefnastjóra Horses of Iceland. Hún segir frá eiginleikum íslenska hestsins, sögu hans og þýðingu fyrir íslenska þjóð, mikilvægi Landsmóts og markaðsetningu hrossakynsins. Fjallað er sérstaklega um hreinleika stofnsins og gangtegundirnar og einnig tekið viðtal við Sigurbjörn (Didda) Bárðarson, einn mesta afreksmann Íslendinga í hestaíþróttum.

Í seinni hluta myndarinnar er fjallað um hrossarækt og ferðaþjónustu. Leikstjórinn Peter og myndatökumaðurinn Adam heimsækja hrossaræktarbýli Gunnars Sturlusonar, sem er forstjóri FEIF, alþjóðlegu regnhlífasamtaka íslenska hestsins. Þeir hitta einnig Guðmar Pétursson, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Hestaland á Vesturlandi, fylgjast með hópi af ferðamönnum á leið í reiðtúr og ræða við hann þennan hluta hestamennskunnar, sem er í örum vexti. Seinni hluti myndarinnar verður einnig sýndur á vefsíðu fei.org í næsta mánuði.

 

„Íslenski hesturinn með sinn einstaka uppruna, hreinræktun og hæfni til að aðlagast óblíðri náttúru, auk stórfenglegs landslags, var fullkomin saga fyrir þáttinn,“ segir Peter. „Við upplifðum íslenska hestinn í alls konar aðstæðum – hlaupandi frjálsan um hrjóstugar sveitir, í rekstri og í undirbúningi fyrir hestaferð, við fæðingu folalds og á Landsmóti. Ég hef tekið upp myndir á hestamótum um allan heim en þetta var frábrugðið öllu öðru sem ég hef séð og heillandi upplifun.“

FEI TV

Fédération Equestre Internationale (FEI) eru alþjóðleg regnhlífasamtök hestamannafélaga um allan heim (m.a. FEIF), þau hafa yfirumsjón með alþjóðlegum hestaíþróttum, þ.m.t. ólympísku keppnisgreinunum. Samtökin halda úti sjónvarpsstöðinni FEI TV, vef- og samfélagsmiðlum sem fá gífurleg áhorf meðal hestaáhugamanna um allan heim. Samtökin voru stofnuð árið 1921 og eru staðsett í Sviss.

Um Horses of Iceland

Markaðsverkefnið Horses of Iceland var stofnsett árið 2015 til að auka verðmætasköpun í tengslum við íslenska hestinn, styrkja ímynd hans í vitund fólks um allan heim og byggja upp sterkt vörumerki, Horses of Iceland.

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins og starfar með verkefnisstjórn sem skipuð er fulltrúum úr hestasamfélaginu, Félagi hrossabænda (FHB), Landssambandi hestamannafélaga (LH) og Félagi tamningamanna (FT), úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, fulltrúum útflytjenda íslenska hestsins og úr Samtökum ferðaþjónustunnar.

Vefsíðu: www.horsesoficeland.is
Samfélagsmiðlar:
Facebook, Instagram, Twitter, Pinterest, Tumblr

Nánari upplýsingar veitir Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland (jelena@islandsstofa.is).