Höfuðmeiðsli í íþróttum

29. febrúar 2016

Á síðustu tveimur árum hefur ÍSÍ ásamt HR staðið fyrir málstofum um höfuðáverka í íþróttum í kjölfar þess að nokkrir afreksmenn í íþróttum höfðu þurft að hætta íþróttaiðkun eftir högg á höfuðið. Til stendur að fylgja þessu eftir og eru veggspjöld í hönnun með upplýsingum um afleiðingar heilahristings og er hugmyndin sú að íþróttafélög hengi þau upp á áberandi stöðum í íþróttahúsum, en mikilvægt er að auka þekkingu á afleiðingum þessarra slysa.  

Þann 18. mars mun Hugarfar, félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið, standa fyrir ráðstefnu um ákominn heilaskaða þann á Grand Hótel frá kl. 9.00-11.45. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Kevin Pearce, fyrrum atvinnumaður á snjóbrettum sem rekur í dag góðgerðasamtökin Love Your Brain, sem hann stofnaði eftir að hann sjálfur lenti í slysi við æfingar árið 2009 og hlaut ákominn heilaskaða.

Heilaskaði hefur stundum verið nefndur „hinn þögli faraldur" þar sem afleiðingar hans sjást iðulega ekki utan á fólki og það er mikil þörf á aukinni fræðslu, hjá fagfólki, í íþróttahreyfingunni, menntakerfinu, hjá stjórnmálafólki og almenningi. Markmið ráðstefnunnar er að skapa umræðu um mikilvægi þess að bjóða upp á úrræði hér á landi sem sannarlega hjálpa fólki að fóta sig í lífinu á ný. Helstu orsakavaldar ákomins heilaskaða eru umferðaslys, líkamsárásir, vinnuslys og höfuðhögg í íþróttum.

Hér er um að ræða frábært tækifæri til að fræðast um stöðu fólks með ákominn heilaskaða, hvaða afleiðingar heilaáverkar geta haft í för með sér og hvað hægt er að gera betur hér á landi í endurhæfingu og fræðslu. 

Auk Kevin Pearce eru erindi ráðstefnunnar:

Að fóta sig í lífinu sem breyttur einstaklingur
- Dís Gylfadóttir, verkefnastjóri hjá Hugarfari og Smári Pálsson taugasálfræðingur ræða áhrif heilaskaða á einstaklinga og fjölskyldur þeirra og möguleg endurhæfingarúrræði sem ættu að vera í boði hérlendis.

Ákominn heilaskaði – staðan á Íslandi
- Guðrún Karlsdóttir, yfirlæknir taugateymis á Reykjalundi, fjallar um tíðni, greiningu og þau endurhæfingarúrræði sem eru í boði á Íslandi og hvar skórinn kreppir í því sambandi.

Fundarstjóri er Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri Íþróttafræðasviðs HR

Hér er um að ræða frábæran vettvang fyrir alla til að fræðast um stöðu fólks með ákominn heilaskaða, hvaða afleiðingar heilaáverkar geta haft í för með sér og hvað við getum gert betur hér á landi í endurhæfingu og fræðslu.
Miðaverð er 4.990 og miða má nálgast á tix.is. 3.990 fyrir félagsmenn.

Það má endilega deila þessum viðburði á íþróttafélög, einstaklinga sem og fagaðila.

Linkurinn á facebook viðburð https://www.facebook.com/events/189095748123923/