Hestar að komast í fulla þjálfun eftir hóstapest

10. maí 2010
Fréttir
Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma. Mynd: www.landsmot.is
Hestapestin svonefnda virðist heldur í rénun og eru mörg hross á góðum batavegi, segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma. Hún segir meðal annars í viðtali við fréttavef Landsmóts að þær vikur sem til stefnu eru fram að Landsmóti ættu í flestum tilfellum að duga til að undirbúa hrossin fyrir mótið. Viðtalið við Sigríði í heild sinni fer hér á eftir. Hestapestin svonefnda virðist heldur í rénun og eru mörg hross á góðum batavegi, segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma. Hún segir meðal annars í viðtali við fréttavef Landsmóts að þær vikur sem til stefnu eru fram að Landsmóti ættu í flestum tilfellum að duga til að undirbúa hrossin fyrir mótið. Viðtalið við Sigríði í heild sinni fer hér á eftir. - Framkvæmdanefnd Landsmóts tók fyrir helgi ákvörðun um að Landsmót færi fram þrátt fyrir hóstapestina svonefndu sem herjar á hrossin hér á landi. Kom aldrei neitt annað til greina?

„Í raun kom aldrei neitt annað til greina enda er veikin heldur í rénun og mörg hross á góðum batavegi. Þær vikur sem eru til stefnu fram að Landsmóti ættu því í flestum tilfellum að duga til að undirbúa hrossin fyrir mótið. En það verður auðvitað að gera ráðstafanir til að tryggja smitvarnir á mótinu og koma í veg fyrir að veik hross mæti á svæðið.“

- Margir spyrja sig hvernig staðið verður að úrtökum. Hver var niðurstaðan?

„Eins og fram hefur komið er niðurstaðan sú að hvetja hestamannafélögin til að nýta þann sveigjanleika sem er í reglum LH um úrtökumót til að gefa sem flestum tækifæri til að spreyta sig. Þetta mun þýða að boðið verður upp á tvær úrtökur þar sem hinni seinni verður seinkað eins og hægt er.  Ég reikna með að LH kynni þetta betur nú á næstunni.

Sömuleiðis verður boðið  upp á auka kynbótasýningar ef á þarf að halda og verða þær í framhaldi af þeim sýningum sem nú þegar eru fyrirhugaðar. Auka sýningarnar er þó aðeins fyrir þau hross sem ekki komast á aðrar sýningar vegna veikinda en ekki verður hægt að nýta þær til að hækka hross sem þegar hafa hlotið dóm á árinu.“

- Fjöldi hrossa hefur verið að veikjast síðustu daga. Er líklegt að þau nái sér fyrir úrtökur og komist á Landsmót?

„Það er að koma í ljós að útivera dregur mjög úr smitálaginu og því ættu hross sem eru að sýkjast núna að komast léttar í gegnum þetta. Ég hvet menn til að létta á hesthúsunum eins og hægt er, þ.e. koma hrossum sem ekki eru í mjög áríðandi verkefnum úr hesthúsunum og í opnari aðstæður. Þau hross sem þarf að halda á húsi ættu að vera eins mikið úti og hægt er, a.m.k. á meðan tíðin er eins góð og raun ber vitni og það er örugglega til bóta að hreinsa hesthúsin.  Ég vil þó ítreka, enn og aftur, að hross sem sýna einkenni veikinnar þurfa skilyrðislausa hvíld og alls ekki má mæta með þau í sýningar eða keppni.“

- Hefurðu spurnir af  hrossum sem orðin fullfrísk og komin í fulla þjálfun eftir að hafa fengið pestina?

„Já, þau sem  veiktust fyrst eru að komast í fulla þjálfun og lofa góðu. Veikin hefur farið afar misjafnlega í hross og það hefur mikið að segja um hversu fljótt er hægt að byrja þjálfun að nýju. Ég hvet menn til að fara varlega í byrjun og láta hestinn ævinælega njóta vafans.“

- Ýmsar vangaveltur eru uppi um hvernig sóttin kom til landsins og hvaða veiki raunverulega er um að ræða. Getur þú upplýst fólk um það hvað er rétt og rangt í þeim efnum?

„Því miður vitum við ekki nákvæmlega hvaða smitefni er á ferðinni en teljum að í grunninn sé um tiltölulega væga veirusýkingu að ræða en oft komi annað og þá aðallega bakteríusýkingar í kjölfarið. Við vitum að þetta er ekki hestainflúensa og ekki herpes 1 sem eru þær sýkingar sem við óttumst að geti orðið hrossastofninum hvað hættulegastar. Sömuleiðis er vitað að ekki er um kverkeitlabólgu að ræða sem sumir kalla amerísku veikina. Áfram verður leitað að frumorsökinni og ef hún finnst munum við gera okkur betur grein fyrir hvernig hún er hingað komin. Sú staðreynd að öll hross virðast næm fyrir sjúkdómnum bendir eindregið til að um nýtt smitefni sé að ræða sem hefur þá borist til landsins með hestafatnaði eða -búnaði.

Ég vil nota þetta tækifæri til að ítreka fyrir hestamönnum að það er með öllu óheimilt að flytja notuð reiðtygi og reiðhanska til landsins, auk þess sem notaðan reiðfatnað ber að hreinsa og sótthreinsa samkvæmt reglum sem finna má á heimasíðu Matvælastofnunar (Mast).“

http://www.mast.is/upplysingar/hestamenn/smitvarnir og á ensku: http://www.mast.is/upplysingar/hestamenn/Uploads/document/augl_mast_protectHorse.pdf


Frétt tekin af www.landsmot.is