Hestamannafélög geta keypt aðgang að myndefni Worldfengs

11. apríl 2019
Fréttir
Nýlega keyptu stjórnir hestamannafélaganna Dreyra, Geysis og Snæfellings aðgang að myndefni landsmóta á WorldFeng fyrir alla sína félagsmenn. Samkvæmt samningi við Bændasamtök Íslands og Landssambands hestamannafélaga þá býðst félögum innan LH að kaupa aðgang fyrir alla sína félaga fyrir aðeins 350 kr. á ári fyrir hvern félagsmann. Venjuleg áskrift að LM myndböndum kostar annars kr. 4.990 kr. m.vsk. á ári, og því er hér um verulega betri kjör að ræða í krafti fjöldans. Þegar hefur verið opnað fyrir aðganginn hjá þessum félögum. Öll kynbótahross landsmóts 2018 eru komin inn og gæðingakeppnin kemur inn fljólega ásamt myndefni frá landsmótum 2000-2008.
 
Þau félög sem hafa áhuga á að færa félagsmönnum sínum aðgang að myndefninu með þessum hætti geta haft samband við skrifstofu LH á netfangið hjorny@lhhestar.is 
 
Myndefnið frá landsmótnum 2000-2008 hleypur á mörgum klukkustundum. Samklippta efnið sem gefið var út á DVD frá þeim mótum verður sett inn um leið og færi gefst. Þá er eftir yfirfæra allt grunnmyndefnið yfir á stafrænt form og að klippa það niður á hvern hest í öllum flokkum í gæðinga, - íþrótta og kynbótasýningum. Um er að ræða umtalsverða vinnu.
 
Þau félög sem keypt hafa aðgang fyrir sína félagsmenn eru Félag hrossabænda, hestamannafélögin Dreyri og Geysir, Íslandshestafélögin í Svíþjóð, Noregi og Belgíu.