Hestadagar í Reykjavík

12. janúar 2011
Fréttir
Vikuna 28.mars til 2.apríl mun Landssamband hestamannafélaga og Reykjavíkurborg standa að viðburðinum „Hestadagar í Reykjavík“. Vikuna 28.mars til 2.apríl mun Landssamband hestamannafélaga og Reykjavíkurborg standa að viðburðinum „Hestadagar í Reykjavík“.

Með Hestadögum í Reykjavík er stigið mikilvægt skref í kynningu á íslenska hestinum í vetrarbúningi. Borgarbúum og gestum gefst einstakt tækifæri til að komast í nána snertingu við íslenska hestinn í borgarumhverfinu og er stefnt að því að um árvissan viðburð verði að ræða í borginni.

Á vormánuðum eru flest hross á húsi og í þjálfun. Skólarnir í borginni eru enn starfandi og því góður tími til að kynna hestinn fyrir nemendum. Þá er marsmánuður utan hefðbundins ferðamannatíma og því hagsmunir fyrir ferðaþjónustuna að draga til sín ferðamenn í tengslum við íslenska hestinn.

Í aðdraganda hátíðarinnar verða hestamannafélögin og ræktunarbú með opin hús og smærri viðburði. Laugardalurinn verður að hestaþorpi í samvinnu við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Þar verður boðið upp á ferðir á hestakerrum, listasýningu á hestum, börnum boðið að fara á hestabak og fjölda annarra viðburða.

Lokapunktur hátíðarinnar verður svo Ístölt „Þeirra allra sterkustu“ sem haldið verður í Skautahöllinni í Laugardal laugardagskvöldið 2.apríl.

Nánari dagskrá Hestadaga í Reykjavík verður auglýst þegar nær dregur.