Heiðursverðlaun LH - Halldór Halldórsson og Helgi Sigurðsson

01. nóvember 2021
Fréttir
Til vinstri: Helgi Sigurðsson dýralæknir og Guðni Halldórsson, til hægri: Halldór Halldórsson og Guðni Halldórsson.

Á verðlaunahátíð LH 2021 voru tveir félagsmenn sæmdir heiðursverðlaunum LH. Það eru þeir Halldór Halldórsson fyrrverandi formaður reiðveganefndar LH og Helgi Sigurðsson dýralæknir.

Halldór Helgi Halldórsson gerðist félagi í hestamannafélaginu Andvara 1983 og starfaði í ýmsum nefndum félagsins auk þess að sitja um tíma í stjórn félagsins. Hann var formaður reiðveganefndar í Kjalarnesþingi og er nú gjaldkeri þeirrar nefndar.

Halldór var í stjórn Landsmóts 2000 og sat í varastjórn LH 2002-2006, í Ferða- og samgöngunefnd LH frá 2002 og sem formaður nefndarinnar frá og með 2006 til 2020 og er enn í kallfæri ef á þarf að halda.

Helstu verkefni voru að vinna að og stofna svæðisbundnu reiðveganefndirnar, en formenn þeirra skipa Ferða- og samgöngunefnd LH sem m.a. sér um úthlutanir reiðvegafjár. Baráttumál var að verja það reiðvegafé sem var til úthlutunnar af vegaáætlun. Færð hafa verið rök fyrir því við ráðherra að reiðvegafé skuli aukið verulega frá því sem var og tókst það á þessu ári að reiðvegafé var aukið um 67% eða í 125. m.kr.

Ferða- og samgöngunefnd LH fékk það veganesti að skrá reiðvegi á landinu, ýmsar leiðir til þess voru reyndar en gáfust misvel. Það var svo árið 2008 að nefndin komst í samstarf við Loftmyndir ehf og sett var á laggirnar Kortasjá LH sem dæmið með skráningu reiðleiða á landinu komst á rekspöl. Hitann og þungann af skráningu reiðleiða í kortasjá og þróun hennar hafa þeir Halldór og Sæmundur Eiríksson varaformaður nefndarinnar borið. Í dag er búið að skrá á fimmtánda þúsund km. af reiðleiðum í kortasjána. Kortasjáin er til mikilla hagsbóta fyrir hestaferðamennsku og aðra, þannig hafa t.d. nokkur sveitarfélög óskað eftir ferlum úr kortasjánni og eða tengjast henni beint.

Halldór setti á laggirnar FB síðu kortasjárinnar, Kortasjá / samgöngunefnd LH, en þar kemur fram allt nýtt varðandi kortasjána ásamt öðru sem tengist reiðleiðum, fylgjendur síðunnar eru um 1500.

Halldór ásamt Sæmundi hafa f.h. LH unnið að uppfærslu og endurhönnun reiðvegahandbókarinnar „Reiðstígar – gerð og uppbygging“ en um er að ræða samstarfsverkefni LH og Vegagerðarinnar, það verk er á lokametrunum.

Halldór var gerður að heiðursfélaga hestamannafélagsins Andvara 2009, honum var veitt gullmerki LH 2012 og silfurmerki hestamannafélagsins Spretts 2018.

Reiðveganefnd LH á eftir að fá að leita í smiðju Halldórs næstu árin, en Halldór hefur yfirburðar þekkingu á reiðvegum landsins og málefnum þeim tengdum.

 

Helga Sigurðsson þarf vart að kynna fyrir hestamönnum. Hann hefur þjónustað hestamenn í 43 ár. 

Helgi var dýralæknir landsmótsins á Þingvöllum 1978. Hann hefur komið að þremur síðustu heimsmeistaramótunum sem dýralæknir, þar af tveimur síðustu sem dýralæknir landliðsins. Helgi er áhugamaður um þolreið og reyndi að vinna að framgangi þolreiða á Íslandi frá 1987-1992.  Hann var því sjálfkjörinn sem dýralæknir í mjög vel heppnaðri fjögurra daga þolreið yfir hálendið nú í sumar, auk þess að vera aðalráðgjafi LH í undirbúningi þolreiðarinnar.

Helgi fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í hestasjúkdómum árið 1994. Hann hefur víða komið að fræðslumálum hestamanna, sat í ritstjórn Eiðfaxa á annan áratug, gaf út bókina Hestaheilsu árið 1989 og endurbætta og stækkaða bók árið 2001, auk fjölda greina og fyrirlestra um hesta og heilsu þeirra.

Helgi hefur á síðari árum skrifað fjórar bækur um sögu hestamannafélaga, sögu Harðar, Andvara, Geysis og sú síðasta, sem nú er að koma út er 100 ára saga hestamannafélagsins Fáks og saga hestamennsku í Reykjavík frá 1850.  Bókin heitir Fákur – þarfasti þjónninn í Reykjavík.

Hestamenn munu vonandi njóta þekkingar og þjónustu Helga um ókomna tíð.