Heiðursfélagi FT látin

13. desember 2017

Ragnheiður Sigurgrímsdóttir fæddist í Holti, Stokkseyrarhreppi, 21. nóvember 1933. Hún var gift Pétri Behrens, listmálara og hestamanni, árin 1973 – 1983.Börn þeirra eru Hlín Pétursdóttir Behrens óperusöngkona og tónlistarkennari f. 1967 og Hákon Jens Behrens rithöfundur, f. 1973.

Ragnheiður var mikil hestakona, víðsýn og þyrsti í þekkingu á því sviði. Hún  fór á til Þýskalands og nam þar klassíska reiðmennsku í Warendorf; tók hún próf á því sviði hjá Albert Brandl í Wülfrath og með þá þekkingu kom hún heim og hóf að breiða út þessa nálgun í reiðmennskunni. Má segja að ásamt Rosmarý Þorleifsdóttur hafi hún verið meðal frumkvöðla á því sviði og fyrir þeirra áhrif breyttist reiðmennska á Íslandi umtalsvert og var þannig lagður grunnur að þeim framförum sem urðu, m.a. fyrir áhrif Félags tamningamanna. Ragnheiður rak reiðskóla um skeið, fyrst á Völlum í Kjós fyrir börn og ungmenni en síðar bæði hjá Fáki sem og fyrir austan á Tóftum. Hún var brautryðjandi í reiðkennslu hér á landi og gerði hún tölvert af því að fá reiðkennara frá Þýskalandi til að koma og halda hér námskeið. Hún var formaður Félags tamningamanna árin 1972 til 1978 og aftur frá 1984 til 1986, fyrsta konan sem gegndi því embætti. Var hún sæmd heiðursmerki félagsins árið 1990. Árið 1975 var hún svo fyrsta íslenska konan sem tók þátt í Evrópumóti íslenska hestsins í Austurríki.

Óhætt er að segja að hestamennskan hafi verið köllun hennar, sem og velferð dýra almennt; Þau hjónin áttu ríkan þátt í því að deild íslenska hundsins var endurvakin innan Hundaræktarfélagsins og un árabil seldu þau hesta um íslenska hunda vítt um lönd.

Ragnheiður var glæsileg kona svo eftir var tekið,  heimskona og reisn yfir henni. Hún var góð og hjartahlý en gat líka verið hörð og ekki endilega allra, enda hafði hún takmarkaða þolinmæði fyrir vitleysu. Hún var sjálfstæð kona og sterkur persónuleiki; mikill frumkvöðull og aldrei smeyk við að takast á við verkefnin sem biðu hennar eða henni fannst mikilvægt að sinna. Þýski hestamaðurinn Walter Feldmann lýsir henni sem ótrúlega töff konu. Hún kallaði ósjálfrátt á virðingu þeirra sem umgengust hana, svo jafnvel örgustu karlrembur höguðu sér eins og siðaðir og vitibornir menn í návist hennar. Hún var víðlesin, bæði í gömlu meisturunum sem og nýrri bókmenntum og sótti leikhús og tónleika í höfuðstaðnum öll árin sem hún bjó sínu búi í Keldnakoti.  

Ragnheiður var sannkallað náttúrubarn; hún gekk á hverjum degi og sótti orku jafnt í brimgnýinn við ströndina sem fuglakvakið í móanum. Og þótt hún hefði greinst með Parkinsons sjúkdóminn þá fór hún mjög reglulega á hestbak allt þar til að henni varð það ómögulegt vegna skyndilegra veikinda. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík, 29. nóvember sl.

Blessuð sé minning hennar.

Maður og hestur, þeir eru eitt
fyrir utan hinn skammsýna markaða baug.
Þar finnst hvernig æðum alls fjörs er veitt
úr farvegi einum, frá sömu taug.
Þeir eru báðir með eilífum sálum,
þó andann þeir lofi á ólíkum málum
– og saman þeir teyga í loptsins laug
lífdrykk af morgunsins gullroðnu skálum.