Íslendingar í 3 efstu sætum

10. ágúst 2017
Fréttir
Jakob og Gloría / Krijn Buitelaar

Fimmtudagurinn byrjaði á yfirlitssýningum kynbótahrossa. Tvö hross fædd á Íslandi komu fram, þau Buna frá Skrúð setin af Birni H. Einarssyni og Grani frá Torfunesi sýndur af Sigurði Vigni Matthíassyni. Bæði hrossin hækkuðu einkunn sína fyrir skeið og Grani endar þar með efstur í flokki 5v stóðhesta og Buna hélt öðru sætinu í sama aldursflokki hryssna.

Forkeppni í tölti – Íslendingar í efstu þremur sætunum

Jóhann Rúnar Skúlason margfaldur heimsmeistari í tölti reið á vaðið í forkeppninni í tölti og hlaut glæsilega einkunn, 8,03 á hesti sínum Finnboga frá Minni-Reykjum. Ásmundur Ernir Snorrason á Speli frá Njarðvík hlaut 7,73 og þar með sæti í B-úrslitum og heimsmeistarinn í fjórgangi frá því í Herning 2015, Guðmundur Fr. Björgvinsson hélt efsta sætinu með 8,07 allt þar til Jakob Svavar Sigurðsson kom með Gloríu frá Skúfslæk og fór beint á topinn með 8,57. Þórarinn Eymundsson á fimmgangaranum Narra frá Vestri-Leirárgörðum hlaut 7,17 og 15. sætið. Kristín Lárusdóttir var mætt til að verja heimsmeistaratitil sinn í töltinu, en hún var á lánshesti frá Þýskalandi og hlaut 7,00 í einkunn, svo ekki nær hún að berjast um titilinn á þessu móti en vonandi fellur hann þó íslenskum knapa í skaut.

Finnbogi Bjarnason á Randalín frá Efri-Rauðalæk keppir í ungmennaflokki á mótinu og hlaut hann 6,43 og þar með varð hann fimmti eftir forkeppnina og ríður til A-úrslita á sunnudaginn.

Gæðingaskeið – heimsmeistaratitill til Íslands

Konráð Valur Sveinsson á Sleipni frá Skör hampaði heimsmeistaratitli í gæðingaskeiði ungmenna í gærkvöldi. Þetta er annar heimsmeistaratitill Konráðs en hann varð heimsmeistari í 250m skeiði ungmenna á Þórdísi frá Lækjarbotnum á HM2013 í Berlín.

Heimsmeistaratitillinn í fullorðinsflokki fór til Svíþjóðar en það var þó Íslendingur sem landaði honum og hlaut glæsilega einkunn fyrir, 9,09. Þetta var Magnús Skúlason á hryssunni Völsu från Brösarpsgården. Teitur Árnason á Tuma frá Borgarhóli var mættur fyrir Íslands hönd að verja heimsmeistaratitil sinn í þessari grein og náðu þeir í bronsið með 7,67 en silfrið fór líka til Svíþjóðar, til Guðmundar Einarssonar á Sprota frá Sjávarborg og einkunn þeirra var 8,54.