Góð byrjun hjá landsliðinu

"Hér er allt gott að frétta", segir Páll Bragi liðsstjóri landsliðsins. "Aðstæður góðar og vellir mjög fínir. Liðið er að standa sig mjög vel, áttum mjög góðar forkeppnir í gæðingakeppninni í gær. Heppnin var ekki alveg með okkur í fimmgangi ungmenna í dag, en í fullorðinsflokki voru þau Olil og Reynir með dúndur sýningar".

Liðið átti svo sannarlega góðan dag í gær, en allir íslensku keppendurnir komust inn í úrslit í gæðingakeppninni.
Bæði Ylfa Guðrún og Glódís Rún komust í A-úrslit í unglingaflokki, en öll A-úrslit gæðingakeppninnar fara fram næstkomandi sunnudag. Í ungmennaflokki komst Ásdís Ósk í A-úrslit en Guðmunda Ellen í B-úrslit, sem riðin voru í dag og lenti hún í 7. sæti.

Guðmunda Ellen í 7. sæti í ungmennaflokki

Í B-flokki lentu Sölvi og Leggur í 2. sæti, Eyjólfur og Háfeti í því 4., Tryggvi og Nótt í 5. sæti og Ísólfur og Flans urðu í 6. sæti. Og í A-flokki voru það Sölvi og Ágústínus í 2. sæti, Tryggvi og Blær í 3. sæti og Finnur Bessi og Kristall í því 8. B-úrslit í A- og B-flokki fara fram í kvöld.

Í dag fór fram forkeppni í fimmgangi ungmenna og fullorðinna. Í ungmennaflokki lentu Ásdís Ósk og Villandi í 6. sæti og Árný Oddbjorg og Tvistur í því áttunda. Í fimmgangi fullorðinna komst Reynir og Dreki inn í A-úrsli og Olil og Álffinnur eru inni í B-úrslitunum.

Árný og Tvistur að gera sig klára í keppni í morgun.

Setningarathöfn mótsins fór síðan fram núna áðan og getum við hlakkað til áframhaldandi spennandi keppni á næstu dögum.

Landsliðið við setningarathöfnina

Stilltu sér svo fallega upp á eftir.