Glæsileg verðlaun á uppskeruhátíðinni

23. nóvember 2023

Á uppskeruhátíð hestamanna var nýr verðlaunagripur kynntur, hannaður af Sign.

Sigurður Ingi kynnti gripinn á hátíðinni og lýsti honum svona:

,,Gripurinn Eldur stendur á bryggjuborði sem táknar það þegar lagt er af stað úr höfn hvort sem það er í ræktun, þjálfun eða keppni þar til úrslitin eru ráðin og sigurinn er í höfn. Hesturinn er úr kopar, táknar eldinn sem er einn af frumkröftum náttúrunnar og ekki síst okkar Íslendinga. Þar sem allt logar undir landi okkar, brennur einnig eldur innra með okkur. Sá eldur er það sem drífur okkur áfram og veitir okkur elju og dugnað sem þarf til að ná settu marki. Stálið í gripnum er tákn þess styrks sem þarf til að ná markmiði hvort sem styrkurinn er líkamlegur eða andlegur. Gyllta skeifan, sem táknar þá gæfu sem til þarf að allt gangi upp og gyllti liturinn endurspeglar að sigurinn er kominn í höfn. Það er okkur gleði og heiður að hanna þennan grip.

Einnig fengu verðlaunahafar afar glæsileg hestamálverk máluð og gefin af Berthu G. Kvaran. Kunnum við henni bestu þakkir fyrir þessa glæsilegu gjöf. Það er dýrmætt fyrir félagasamtök á borð við LH að eiga slíka velunnara.