Glæsileg úrtaka og Gullmót

18. júní 2013
Fréttir
Föngulegur hópur! Mynd: BÁB
Eftir HM-úrtöku í síðustu viku og glæsilegt Gullmót sem lauk á sunnudaginn, hafa sjö knapar tryggt sér sæti í liðinu. Að auki eigum við þrjá ríkjandi heimsmeistara sem allir hafa staðfest þátttöku sína á HM2013.

Eftir HM-úrtöku í síðustu viku og glæsilegt Gullmót sem lauk á sunnudaginn, hafa sjö knapar tryggt sér sæti í liðinu. Að auki eigum við þrjá ríkjandi heimsmeistara sem allir hafa staðfest þátttöku sína á HM2013.

Þessir knapar eru:

  • Jakob Svavar Sigurðsson/Alur frá Lundum II - stigahæsti 5-gangari í úrtöku
  • Viðar Ingólfsson/Hrannar frá Skyggni - stigahæsti 4-gangari í úrtöku
  • Hinrik Bragason/Smyrill frá Hrísum - stigahæsti töltari T1 í úrtöku
  • Teitur Árnason/Jökull frá Efri-Rauðalæk - 5. hestur skv. lykli að vali liðsins, náði betri tíma en 22,10. ATH: þetta er birt með fyrirvara um að aðrir nái ekki betri tíma fram að lokavali liðsins en Teitur gerði í 250m skeiðinu en hans besti tími var 21,93
  • Arnar Bjarki Sigurðarson/Arnar frá Blesastöðum 1A - stigahæsti 5-gangari í ungmennaflokki í úrtöku
  • Arna Ýr Guðnadóttir/Þróttur frá Fróni - stigahæsti 4-gangari í ungmennaflokki í úrtöku
  • Flosi Ólafsson/Möller frá Blesastöðum 1A - stigahæsti töltari T1 í ungmennaflokki í úrtöku
  • Eyjólfur Þorsteinsson - ríkjandi heimsmeistari í samanlögðum 4-gangsgreinum
  • Jóhann Rúnar Skúlason - ríkjandi heimsmeistari í tölti T1
  • Bergþór Eggertsson - ríkjandi heimsmeistari í 250m skeiði

Landsliðsnefnd þakkar Gullmótinu og Fáki fyrir gott samstarf og glæsilegt mót sem tókst afar vel til með, þrátt fyrir erfiðleika í upphafi móts. Um leið minnir nefndin á opinn fund í húsakynnum Ásbjörns Ólafssonar í dag kl. 17:00.  

Þar munu tveir reynsluboltar flytja erindi og fyrstan skal kynna fyrrum landsliðsþjálfara íslenska landsliðsins í handknattleik, Guðmund Guðmundsson þjálfara hjá Rhein-Neckar Löwen. Hann flytur erindi um uppbyggingu liðsheildar og markmiðasetningu. 

Það er svo Sigurður Sæmundsson fyrrum liðsstjóri íslenska landsliðsins í hestaíþróttum sem flytur erindið "Leiðin að gullinu". Þessir kappar búa yfir mikilli reynslu á sínu sviði og hafa náð gríðarlega góðum árangri í gegnum tíðina. Það er því mikill fengur í því að fá að hlusta á þá miðla reynslu sinni til okkar hestamanna. 

Vakin er sérstök athygli á því að þessi fundur er opinn öllum unnendum íslenska hestsins og áhugsamir eru boðnir velkomnir í húsakynni Ásbjörns Ólafssonar sem er samstarfsaðili íslenska landsliðsins og er meðal annars með hinar þekktu Kerckhaert skeifur. 

Landsliðsnefnd LH