Glæsileg uppskeruhátíð

12. nóvember 2012
Fréttir
Uppskeruhátíð hestamanna fór vel fram á Broadway á laugardagskvöldið var. Haraldur Þórarinsson formaður LH setti hátíðina og fól Gísla Einarssyni veislustjórnina og fór honum sá starfi afar vel úr hendi.

Uppskeruhátíð hestamanna fór vel fram á Broadway á laugardagskvöldið var. Haraldur Þórarinsson formaður LH setti hátíðina og fól Gísla Einarssyni veislustjórnina og fór honum sá starfi afar vel úr hendi. Ingó veðurguð kom og tók nokkur lög við mikinn fögnuð gesta og óhætt að segja að hann hafi náð salnum algjörlega á sitt band. Fagmaður þar á ferð. Hljómsveitin Von lék síðan fyrir dansi með austfirðinginn Magna Ásgeirsson í bílstjórasætinu. Hestamenn dönsuðu fram á nótt við þeirra undirspil og skemmtu sér konunglega.

Dagskrá hátíðarinnar var hefðbundin og hápunktur hennar þegar íþróttamenn okkar og heiðursverðlaunahafar voru verðlaunaðir.

Efnilegasti knapi ársins: Ásmundur Ernir Snorrason, Mána

Íþróttaknapi ársins: Jakob Svavar Sigurðsson, Dreyra

Gæðingaknapi ársins: Sigurður Sigurðarson, Geysi

Skeiðknapi ársins: Sigurbjörn Bárðarson, Fáki

Kynbótaknapi ársins: Gísli Gíslason, Þúfum

Knapi ársins: Guðmundur Björgvinsson, Geysi

LH veitti tveimur heiðursmönnum heiðursverðlaun fyrir áralanga aðkomu þeirra að málefnum íslenska hestsins um allan heim. Þetta voru þeir dr. Ewald Isenbügel dýralæknir í Sviss og Eyjólfur Ísólfsson reiðkennari og þjálfari. Því miður gátu þeir hvorugur heiðrað samkomuna með nærveru sinni en bróðursonur Eyjólfs, Ísólfur Líndal Þórisson kom og tók við hans verðlaunum.

Síðast en ekki síst var það Blesastaðabúið sem hlaut viðurkenningu fyrir ræktun keppnishesta og nægir þar að nefna hross eins og Ölfu, Fláka, Möller og Óskar sem flaggskip úr ræktun þeirra Magnúsar Trausta Svavarssonar og Hólmfríðar Birnu Björnsdóttur á Blesastöðum 1A.

LH óskar verðlaunahöfum til hamingju með sín verðlaun og klárt mál að ekkert nema dugnaður, markviss þjálfun og elja skila slíkum sigrum sem þessir íþróttamenn ná.