Glæsileg byrjun í fimmgangi

09. ágúst 2023
Fréttir

Þá er forkeppni í fimmgangi lokið, við áttum fimm fulltrúa, þrjá í fullorðins flokk og tvo í ungmennaflokk. Allir okkar keppendur stóðu sig vel og eru komnir inn í úrslit. Sara og Flóki voru fyrst inn á völlinn og settu tóninn með glæsilegri sýningu upp á 7,37 og enduðu í 3 sæti og eru í 2. sæti inn í A úrslit fullorðinna. Strax á eftir Söru í rásröðinni voru svo þær Glódís og Salka. Þær áttu frábæra sýningu og náðu sínum besta árangri hingað til og leiða keppnina í U21 með 7,4 og eru með aðra hæstu einkunn dagsins af öllum keppendum í fimmgang, sannarlega flottur árangur það.

Þriðja íslenska parið í braut í fimmgangi voru engin önnur en nýkrýndir heimsmeistarar ungmenna í gæðingaskeiði Benedikt og Leira-Björk. Þau hafa lítið sem ekkert keppt í fimmgang, en síðasta keppni þeirra saman í þeirri grein var 2019 – þá fengu þau 6,33. Árangur dagsins er því sannarlega glæsilegur hjá þessu flotta pari, en í dag fengu þau hvorki meira né minna en 6,5. Þau eru eftir daginn þriðja stigahæst ungmenna.

Fjórðu voru Benjamín Sandur og Júní. Þeir áttu gífurlega flotta sýningu. Benjamín og Júní eru glænýtt par, en sýndu heldur betur úr hverju þeir eru gerðir og hlutu 6,97 í einkunn og deila þar með 10. sæti með fimmta og síðasta pari okkar í braut þeim Þorgeiri og Goðasteini. Þeir slógu botninn í fimmganginn hjá okkar hóp með glæsilegri sýningu upp á 6,97. Benjamín og Þorgeir munu því keppa í B-úrslitum.

Hekla Katharína landsliðsþjálfari U21 var ákaflega ánægð með daginn og sagði: ,,Glódís átti frábæra sýningu upp á 7,40 og Benedikt var að toppa sig í fimmgangi, algjörlega óæft því við höfum bara lagt áherslu á gæðingaskeiðið og hann hefur fengið þau fyrirmæli að æfa þetta bara í reiðtúrum og það hefur greinilega gengið mjög vel. Svo eru kappreiðarnar í kvöld, fyrstu tveir sprettirnir, en það væri gaman stimpla sig strax þar inn. Uppleggið var halda fókus og pass að hestarnir fari ferskir inn á völlinn. Þá verðum við þjálfararnir að vera vel á tánum á upphitunarsvæðinu og passa að knaparnir fari ekki fram úr sér því hestarnir þurfa að vera með mestu orkuna inna á vellinum og mér finnst það hafa tekist vel í dag.“

Framundan er svo seinna yfirlit kynbótasýninga 5 og 6 vetra sem og 1&2 sprettur í 250m skeiði.