Gerir meiri kröfur til reiðmennskunnar

28. apríl 2009
Fréttir
Reynir Aðalsteinsson með nemendum á Hvanneyri.
„Markmiðið með þessari útfærslu á töltkeppninni er að gera meiri kröfur til reiðmannsins. Eins og keppnin er riðin í dag, þá liggur mér við að segja að þú getir keypt hest í gær, unnið keppni á honum í dag, og síðan eyðilagt hann á morgun,“ segir Reynir Aðalsteinsson, reiðkennari á Hvanneyri. „Markmiðið með þessari útfærslu á töltkeppninni er að gera meiri kröfur til reiðmannsins. Eins og keppnin er riðin í dag, þá liggur mér við að segja að þú getir keypt hest í gær, unnið keppni á honum í dag, og síðan eyðilagt hann á morgun,“ segir Reynir Aðalsteinsson, reiðkennari á Hvanneyri.

Reynir hefur tekið þátt í að móta ýmsar keppnisgreinar hestaíþrótta. Og hann er einn fárra Íslendinga sem hefur unnið Tölthornið fræga, sem keppt er um á heimsmeistaramótum. Hann hefur nú mótað hugmynd um nýja útfærslu á töltkeppni, sem miðar að því að gera meiri kröfur til reiðmannsins. Keppt var eftir þessari hugmynd á Skeifudegi Hvanneyringa fyrir skemmstu. Keppnin fór fram í reiðhöllinni á Mið-Fossum.

„Eins og töltkeppnin er núna þá getur knapinn riðið öll atriði keppninnar beint, með stuðning af grindverki að línu. Í minni útfærslu er gerð sú krafa til viðbótar að hestinum sé riðið á hring (ca 20 m í þvermál) á hægu tölti á báðar hendur. Það gefur miklar upplýsingar um reiðmennskuna, hvort knapinn hefur vald á hestinum, og hvernig hann er þjálfaður. Hraðabreytingarnar eru riðnar þannig að eftir hæga töltið skiptir knapinn yfir allan völlinn, tekur stefnu án stuðnings, og ríður horn í horn. Yfirferðin er hefðbundin.

Ég tel að með þessari útfærslu sé gerð meiri krafa til kunnáttu reiðmannsins. Jafnvægi hestsins og fúsleiki kemur betur í ljós. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því að úrslitakeppnin gæti orðið klúðursleg. En það var ekki. Hún kom bara vel út. Hún þarf stjórnun frá þul, en er alls ekki erfið í framkvæmd,“ segir Reynir Aðalsteinsson.